13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun reyna að stytta mál mitt, en það eru nokkur atriði, sem mér finnst ekki rétt að láta alveg fara fram hjá sér.

Hv. þm. Str. er ekki hér, en við hann vildi ég segja nokkur orð, en áður en ég vík að því, vildi ég víkja nokkrum orðum að því sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að önnur aðalmeinsemdin í okkar „parlamenteríska“ líkama væri, ef svo mætti segja, ofmettun þjóðarinnar, og sennilega væri hyggilegast að láta náttúruna lækna það sjálfa.

Út af þessu vil ég segja nokkur orð. Ég hygg, að sú skoðun, sem kemur fram í ræðu hv. þm., eigi kannske nokkru meiri ítök í hugum manna en ætta mætti af þeim opinberu umr., að í rauninni sé bezt að láta þetta lækna sig sjálft. Þ.e.a.s., þegar misræmið á milli framleiðslukostnaðar og þess, sem hægt er að selja vöruna fyrir, er orðið svo mikið, að til fullkominnar stöðvunar leiðir, muni fylgja því lækkun á kaupi og lakari lífskjör fyrir það fólk, sem að þessu vinnur. Ætli það mundi ekki verða erfitt fyrir framleiðendur innanlands, eins og verði er háttað á innlendum afurðum, að fylgja með? Enda mun það vera þetta, sem hv. þm. Str. meinti, þegar hann talaði um að fram undan væri einhver sú ægilegasta kreppa í landbúnaðinum, sem komið hefði. Ég lit svo á, að þetta sé það, sem kallað er að láta reka á reiðanum. Það væri ekki að lækna. Það væri að gefast upp. Því hef ég frá því fyrsta reynt að bera fram till. til þess fyrst og fremst að stemma stigu við dýrtiðinni og svo lækna hana, en einmitt það, að þessi skoðun kemur fram hjá hv. þm. S.-Þ., skýrir kannske það fyrirbæri, að þrátt fyrir umr. flokkanna um þetta, virðist, þegar til á að taka, ekki vera alvara með að gera neitt. Það virðist ekki ótrúlegt, að þetta sé í sambandi hvað við annað. Ég tók eftir því, að hv. þm. Barð. sagði, að það væri mikið vafamál, hve mikið kappsmál það væri að lækka dýrtíðina með opinberum ráðstöfunum, og það er sami hugsunarhátturinn, sem þar kemur fram.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. Str. Þessum hv. þm. fer að sumu leyti broslega að vera með slíkar brýningar, sem hann er með í garð Alþfl., sem hann kallar verkamannaflokk. Hann talar um þennan flokk, sem alltaf hafi verið að tala um, að hann vildi skattleggja stríðsgróðann, en svo gengið á allt saman. Það er annað með Framsfl. Það eru nú karlar, sem ekki eru að fara í kringum þetta mál. Ja, ég verð nú að segja, að það er stundum ósamræmi milli orða og æðis, ekki siður þar en annars staðar. Ég man ekki eftir, að það mætti mótstöðu frá flokknum, þegar fellt var úr frv. stj. að takmarka afurðasölul. við það, sem þar var gert. Ég ætla líka að framsóknarmenn hafi verið með því að fella niður ákvæði um skattana í frv. stj. og hygg, að þeir hafi í fjhn. Nd. greitt atkvæði um að fella þetta úr frv. stj., en hafi svo til málamynda flutt till. í n., sem ekki náði samþykki, en svo samþykkt till. frá sósíalistum, sem svo er 7. gr.

Þegar frv. kom til 3. umr., gat Framsfl. ekki sætt sig við, að peningarnir gengju til alþýðutrygginganna, og kom með till. um, að þeir gengju til raforkusjóðs og fékk þá till. samþykkta. Þannig má minna á ýmislegt fyrr og síðar hjá þessum flokki í sambandi við skattalöggjöfina. Ég man ekki betur en snörp átök yrðu um það, hvort gefa skyldi tapsfrádráttinn skattfrjálsan, og það var Framsfl., sem sigraði í samstarfi við Sjálfstfl. Þar var um að ræða 10 millj., sem þessi liður var hærri en hann er nú. Ég held, að hv. þm. Str. ætti fyrst að hugsa um það að gera hreint fyrir . dyrum flokks síns, áður en hann fer að tala til annarra. En ég er ráðinn í að fara mjúkum höndum um þennan mann, því að það er ástæða til að ætla, að á næstunni geti tekizt samvinna okkar á milli umfram það, sem nú er, og ég vil að sú samvinna geti tekizt. Ég vil aðeins halda mig að því, sem hann nefndi, úr því hann vill ræða þetta á þeim grundvelli.

Mér þótti vænt um það, sem hann sagði um alþýðutryggingarnar, að það væri ekki vandi að fá peninga til þeirra, að það stæði ekki á því, að flokkarnir vildu veita fé til alþýðutrygginganna. Svo tók hann sig á og sagði: „A.m.k. ekki Framsfl“ En í n. flutti framsóknarmaður till. um að leggja í raforkusjóð það fé, sem búið er að samþykkja að leggja í alþýðutryggingarnar, í raforkusjóð, sem búinn er að fá 10 millj. og búið að binda handa honum 5 millj. kr. á ári. Á þessu tvennu tel ég mjög mikinn mun: brtt. flokksmanns hv. þm. Str. og ræðu hans. Ég segi um þetta svipað og um skattamálin, að ég vona, að svo verði efndir sem orð í þessu efni, og vil leita eftir því að fá samvinnu við hann um þessi mál framvegis. Hann fær áreiðanlega mörg tækifæri til þess að sýna vilja sinn í þessu efni.

Hv. þm. Str. beindi fyrirspurn til Alþfl. og Sósfl., að því er mér skildist. Hún var um það, hvort Alþfl. væri tilbúinn að taka 7. gr. upp, ef alþýðutryggingarnar fengju allt það fé, sem þeim þar er ætlað. Hv. þm. Str. er þingvanur og hygginn maður. Hann veit, að honum er óhætt að spyrja um þetta núna, af því að búið er að gera samkomulag um málið, og hann veit, að ég svík ekki það samkomulag, sem ég hef gert. Honum var þess vegna óhætt að spyrja núna.