13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég gat um það í ræðu minni í dag, að andstaða mín mótaðist mest af þeirri stefnu, sem verið er að lögfesta og er í því fólgin, að komið er aftan að skattþegnunum. Margir þm. hafa talað í dag, en enginn þeirra, og ekki heldur fjmrh., hefur gert minnstu tilraun til að hrekja rök ræðu minnar fyrir því, að það væri þ. ósæmandi að ganga slíka braut. Hv. þm. Str. treysti sér ekki til að mótmæla þessu, en sagði þó, að það þyrfti nauðsynlega að ná til gróðans 1942. Ég vil út af þessu bera fram ákveðnar fyrirspurnir, og beini þeim einkum til hv. þm. Str. Hér á Alþ. í sumar var ákveðið með þál. að greiða uppbót til bænda, allt að 25 millj., eftir því sem komið hefur fram. Mundi hv. þm. Str. samþ., að þetta þ. setti l. um, að féð skyldi ekki greitt? Þetta er nákvæmlega hliðstætt því, sem nú á að gera. Ég vil líka benda á, að á sama þ. voru ákveðnar kjarabætur til embættismanna um grunnkaupshækkun. Mundi hv. þm. Str. og aðrir þm. vera sammála um að gefa út l. um, að þetta skyldi ekki greitt lengur en til dagsins í dag? Ég mundi telja það svik við þessa menn og ekki fást til að gera það.

Hv. þm. Str. gat þess, að ekkert hár væri snert á höfði stórgróðamannanna með þessu frv. Ég vil benda honum á, að hann gengur alveg fram hjá ákvæðum 1. gr., nema hann telji, að það séu ekki stríðsgróðamenn, sem hafa 200 þús. kr. tekjur. En það er einmitt á þá lagður 23350 kr. aukaskattur. Það er upplýst af hv. frsm. meiri hl. fjhn., að um 170 þús. eru teknar af þessum gróða frá annari hlið, og þá eru eftir 4%, eða um 8000 kr. Ég sé því ekki, hvernig það getur staðizt, að ekki sé verið að skerða hár á höfði stríðsgróðamannanna. Er hv. þm., sem hefur verið ráðh. í mörg ár, svona óvandur að fullyrðingum sínum, eða setur hann sig svona litið inn í málið, að hann veit ekki, hvað hann er að tala um?

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það væri verið að koma aftan að verkalýðnum, ef 3. gr. yrði samþ. óbreytt. Ég er honum alveg sammála og vil því fella 3. gr. burt: En það er ekki verið að koma fremur aftan að verkalýðnum en skattþegnum yfirleitt með samþ. 1. gr. og 7. gr. Ég skil ekki, að menn, sem hafa tekið að sér að vera þm. þjóðarinnar, geti aldrei lítið út fyrir hagsmuni síns eigin flokks.

Hv. 5. þm. Reykv. gerði fyrirspurn til ríkisstj. út af ákvæðinu í 5. gr., sem lýtur að útsöluverði mjólkur. Því hefur ekki verið svarað, og það einkennilega hefur skeð hér, að ríkisstj. og fjmrh. hafa eiginlega ekkert sagt um þessi mál, en ég mun líta svo á, að það verð, sem talað er um, eigi að gilda um land allt, kr. 1.30, og tel það sanngjarnt, því að vísitalan fyrir verkamenn úti á landi er reiknuð eftir þörfunum í Rvík, en ekkert tillit tekið til þess, hvort ódýrara er að lifa úti á landsbyggðinni. Ég veit hins vegar ekkí, hvernig ríkisstj. hugsar sér að framkvæma þetta.

Í sambandi við skattal. og skattakerfið vil ég benda hæstv. fjmrh. á, að það er einmitt skattakerfið, sem átti mikinn þátt í dýrtíðinni. Þegar búið var að ganga frá skattal. þannig, að atvinnurekendum og stríðsgróðamönnum var ekki leyft að halda eftir nema sára litlu, var eðlilegt, að þeir vildu eins láta sína starfsmenn njóta þess eins og að féð færi í ríkissjóðinn. Ég benti á þetta í d. síðastliðið sumar, að þetta mundi reynslan sýna. Þetta hefur valdið meira peningaflóði í landinu en æskilegt var, og till. mín um breyt. á 7. gr. miðaði að því að kippa þessu í lag, ef henni hefði verið sinnt.

Í sambandi við orð hv. 3. landsk. þm. um, að það hefði komið fram, að ég teldi ekki þjóðarböl að dýrtíðinni, vil ég segja, að ummæli mín voru á þá leið, að það væri ekki gert upp enn, hvort hún væri böl eða ekki, því að ef þjóðin sjálf vildi lækka dýrtíðina, mundu allir þm. keppast við að reyna það til að halda fylgi. En af því að þetta er óuppgert mál, þora þm. ekki að gera neitt. Mér finnst, að ríkisstj. beri að láta rannsaka vísindalega, hve miklu þjóðarbúið tapar af gjaldmiðli frá setuliðinu innan lands, ef dýrtíðin er lækkuð, því að það er sjálfsagt að gera upp, hvað ríkissjóður græðir við lækkunina og hvað þjóðarbúið tapar vegna sölu til setuliðsins fyrir lægra verð. Þetta hefur ekki verið rannsakað, en það er nauðsynlegt að gera áður en ákveðið er, hve mikið fé á að greiða úr ríkissjóði til að borga niður dýrtíðina.

Mér fannst einkennilegt, þegar hv. 3. landsk. þm. og hv. 5. þm. Reykv. héldu því fram, að óhætt væri fyrir hv. þm. Str. að spyrja um samninga, því að þeir hefðu lofað og svikju ekki sína samninga. Þetta gaf til kynna, að það væri alltaf hægt í tíma að verzla við þessa menn, og væri t.d. hægt að taka þetta upp á næsta þ. Það er ábyrgðarhluti fyrir hvern kjósanda að gefa slíkum þm. fylgi sitt. Ég hefi aldrei séð grímunni kastað eins opinberlega og báðir þessir þm. hafa gert hér í d. í dag. Ég vona, að þetta sé ekki innræti þeirra, heldur sé það eitthvað annað, sem hefur komið þeim til að slá þessu fram.

Að síðustu vil ég minnast á ummæli hv. þm. S.-Þ. Hann kenndi hinum tíu kommúnistum um allt ófremdarástandið í þ. og mælti ekki blíðlega til þeirra. Það er einkennilegt af formanni flokks, sem í tvo mán. er búinn að daðra við kommúnistana til að fá að vera með þeim í landsstj., að hella sér svona yfir þá nú. Hvernig hefði farið um þá landsstj., sem hann ætlaði að mynda með þessum vandræðamönnum? Það hefði verið ljóti krossinn á þjóðinni.