13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér inn í þessar umræður, en ég vildi koma í veg fyrir misskilning, sem orð hv. þm. Str. kunna að gefa tilefni til, þar sem hann sagði eftir mér, að skattur þessi væri ekki fórn, heldur friðþæging. Ég mun hafa sagt það á einum stað í ákveðnu sambandi, að ef þessi skattur færi til þess að lækna það öngþveiti sem landsmenn hafa að miklu leyti skapað sér sjálfir, þá mætti líta á hann sem friðþæging, en ekki fórn, m.ö.o., friðþæging fyrir mistök. Ég vildi bara leiðrétta þetta, af því að það kom nokkuð út úr réttu sambandi.

En úr því að ég stóð upp, þá vil ég færa fram mínar tölur, um skatta þá, sem gera má ráð fyrir, að fáist samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir. Mér skildist af hv. frsm., að honum teldist svo til, að kjöt- og mjólkuruppbótin mundi nema um 4 millj. kr., og þegar við er bætt 3 millj. í tryggingarsjóðinn, þá yrðu það samtals 7 millj. kr., sem þyrfti fram að leggja. Mér telst svo til, að kjötuppbótin verði 31/2–4 millj. kr., en skal taka það fram, að þá er einnig tekin til greina sú verðlækkun, sem gerð var á kjötinu. Mjólkuruppbæturnar munu nema 1,8 millj. en ekki 1 millj. Ef sjóðnum er svo bætt við, þá verða þetta 81/2 millj. kr. Ég vildi taka þetta fram, af því ég er vantrúaður á, að sá skattur, sem gert er ráð fyrir í frv., gefi þá fjárhæð, sem greind hefur verið.

Viðvíkjandi því, er hv. þm. Str. sagði um rafveitusjóð og framkvæmdasjóð, vil ég taka það fram, að 5 millj. hafa verið lagðar í raforkusjóð í Landsbanka Íslands, eins og lög gerðu ráð fyrir, og 8 millj. í framkvæmdasjóð. Ég geri ráð fyrir, að á næstunni verði 5 millj. kr. lagðar í raforkusjóð til viðbótar, svo að hann verði 10 millj., eins og lög mæla fyrir um. Þetta verður mögulegt af því, að svo lítur út fyrir, að tekjuafgangur 1942 verði meiri en gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru til umr., og einnig vegna þess, að þær verðuppbætur, sem þá var gert ráð fyrir, verði nokkru minni, vegna þess hve vel tókst sala á þeim afurðum, sem seldar voru til Ameríku.