13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég skal vera mjög stuttorður. Ég stóð upp til að lýsa því yfir, að ég mun taka brtt. viðvíkjandi verðlagi á mjólk aftur til 3. umr. í þeirri von, að hv. fjhn. athugi hana milli umræðna.

En úr því að ég er staðinn upp, get ég rétt sagt nokkur orð við hv. þm. Str. Það er rangt hjá honum, að stríðsgróðamenn þurfi að sleppa við einn einasta eyri í skatt vegna þessarar afgreiðslu frv., svo framarlega sem Framsfl. stendur við orð sín. Það er algerlega undir Framsfl. komið. Ef Framsfl. stendur við orð sín, þá eru þessar umr. óþarfar, og ég skil ekkert í, að hv. þm. skuli halda áfram að bulla svona allan daginn. (BBen: Er hv. þm. nokkuð óvanur því að heyra hann gera það?). Nei, maður segir nú svona. — Hvers vegna hefur fl. ekki flutt frv. um þessi efni á þessu þingi? Þannig má spyrja, og því þarf að svara. Þegar upplýst er, að til sé þingmeirihl. fyrir þeirri breyt. á skattal. að leggja á nauðsynlegan stríðsgróðaskatt, þá lítur það vissulega nokkuð einkennilega út, að þessu skuli ekki hafa verið komið í framkvæmd á þessu langa þingi.

Það er rétt að upplýsa það hér, að Sósfl. fór þess á leit við Framsfl. snemma á þessu þingi og Alþfl. — að þeir undirbyggju og flyttu sameiginlega með fl. nokkur frv. um mál, sem þeir í yfirlýsingum sínum fyrir kosningar höfðu talið sig sammála um, m.a. skattamálin. Framsfl. tók vel í það að því leyti, að hann kaus menn til viðtals — og Alþfl. líka — og tók fram, að hann vildi líka athuga, hvort ekki gæti fundizt grundvöllur fyrir myndun vinstri stjórnar. Sósfl. var fús til að ræða það, en hitt var hans höfuðáhugamál að fá þegar samvinnu um þau mál, sem yfirlýst var, að fl. hefðu sameiginlega á sínum stefnuskrám. Þetta tókst ekki. Framsfl. vildi ekki samþykkja að vinna með Sósfl., nema hann vildi mynda stjórn með Framsfl. með þeim skilyrðum, sem Framsfl, setti, m.a. að kaup verkamanna væri lækkað. M.ö.o., þeir hafa haldið því fram, eins og þm: hafa heyrt, að þeir væru reiðubúnir að semja um hlutfall milli kaupgjalds og verðlags, en það kom í ljós, að þeir vildu ekki breyta verði landbúnaðarafurða frá því, sem það var, nema kaupgjald og afurðaverð væri lækkað í jöfnum hlutföllum. Nei. Tilgangurinn með pólitík Framsóknar var ekki að auka tekjur bænda, heldur bara að lækka kaup verkamanna. Í þeim tilgangi er svo afurðaverðið skrúfað upp. Þetta er eitt af þeim höfuðskilmálum, sem Framsfl. setur. Þess vegna talar hann svo mikið um þennan óskapa lúxus, sem verkamenn lifa í. Þetta er ástæðan fyrir því, að þeir tala um 60–70% kauphækkun verkamanna. Nú, þegar upp úr þessu slitnaði, þá getur Framsfl. ekki haldið áfram.

Það hefur verið talað mikið um 60–70% kauphækkun og lúxuslíf verkamanna og að þeir væru of vel haldnir. Nú segir hv. þm. Str. að kjör verkamanna hafi ekki batnað þrátt fyrir kauphækkunina, og er það ofur skiljanlegt, þar sem afurðaverð hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni um. Því hefur verið haldið fram, að vísitalan væri rétt, en það getur ekki staðizt, ef 60% kauphækkun kemur ekki að haldi. Þm. er hér kominn gegnum sjálfan sig, og er ekki hægt að gera betur. (BSt: Þetta er rökfals).

Þá talaði þessi hv. þm. um, að þýðingarlaust væri að leggja í sjóði, ef engar ráðstafanir væru gerðar til að lækka dýrtíðina. Virtist hann draga í efa að raforkusjóður væri til nokkurs gagns. Ég vil þá spyrja hvers vegna verið er að leggja í sjóði, ef þeir koma ekki að gagni. Í öðru lagi hvers vegna verið er að leggja til atvinnutrygginga, hvers vegna skattar eru lagðir á, hvers vegna lagt fé í ríkissjóð, ef hætta er á, að þetta komi ekki að neinu gagni. Hann sagði, að í þessu ætti að verja til þess að lækka dýrtíðina, en ég vil benda á það, að þótt haldið verði áfram að veita uppbætur, þá er það engin lausn á dýrtíðarmálunum. Þegar skattar eru lagðir á, er ákveðið, til hvers þeir eiga að fara og er óþarfi að leggja þá á, ef ekki er fundin leið, til hvers eigi að nota þá.

Hv. þm. Str. kvað enga ástæðu til að setja frekari takmörk um skattfrelsi, eins og sakir stæðu. Það kom till. frá Sósfl. um takmörkun þess, en Framsfl. drap hana. Ástæða þessa þm. var sú, að hann var í þjónustu manns, sem hafði hagnað af þeirri lausn málsins. Hann sagði, að sér hefði ekki verið sagt upp vistinni, heldur hefði hann sagt henni upp sjálfur. Það er ekki í samræmi við það, sem þm. hefur sagt áður, að það hafi verið Sjálfstfl. Hann telur þetta hafa verið sultar líf og furðar mig á, að hann skuli hafa haldið það út í 3 ár. Ég hafði aldrei hugsað mér að ganga í þá vist, og sízt eftir að hafa heyrt þetta. Þegar ekki var hægt að gera gagn lengur, var vistráðningartíminn á enda, og krossmessan kom.

Hv. 1. þm. Eyf. hafði borið fram brtt. um nokkuð sama efni og meiri hlutans, og var hún samþ. í höfuðatriðum. Allshn. ákvað að flytja till. við 3. umr., sem vonandi nær samþykki. En af því hef ég ekki borið fram formlega till., að ég vona, að hv. 1. þm. Eyf. sé samþ. frv.