13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Það var ekki nema eðlilegt, að það þyrfti ekki fleiri ræður af hálfu Framsfl. heldur en haldnar hafa ver ið hér í hv. d. um þetta mál til þess að koma upp um það, hvað sérstaklega hefur vakað fyrir þeim flokki. Það skauzt upp hjá hv. 2. þm. N.-M. (PZ). Hann var nógu hreinskilinn til að segja það, þó að hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) varaðist að koma inn á það. Það var sem sé frá sjónarmiði þess flokks það, sem á skorti í þessu frv., að kaupið væri hækkað. En hv. 2. þm. N.-M. kom með það. Þessum flokki þótti það skorta á frv., að ekki var haldið áfram á lögfestingarleiðinni. Það er það líklegast, sem gerir það að verkum, að einhverjir hv. framsóknarmenn verði á móti þessu frv. nú við þessa umr. Svo er því bætt við, að þetta sé allt gert á kostnað bænda.

Sannleikurinn er, að til þess að ná samkomulagi í fjhn. Nd. þá var gengið inn á þær ýtrustu kröfur, sem fram komu frá hálfu bændafulltrúanna. Það var fulltrúi Framsfl. í n., sem dikteraði greinina, sem fjallar um afurðaverð bænda. Svo kemur annar hv. framsóknarþm. hér í hv. d. og segir: „Það, sem með þessu er stefnt að, er á kostnað bænda. En það þarf að lækka kaupið.“ Hér kemur annar framsóknarmaður og segir: „Allt, sem verið er að gera, er gert á kostnað bændanna.“ Svo kemur 2. þm. S.-M. og segir: „Það er búið að fara svo með þetta fjhn. frv., að það er þinginu til skammar. Þetta er „sabotage“ skemmdarverk, sem gerð eru á frv. Það er eitthvað annað, ef komið væri til okkar framsóknarmanna og unnið með okkur að frv.“ Já, hvernig mundi vera að fara þá leið? Þessi leið var reynd í Ed. Sama daginn sem þetta frv., sem verið er að afgreiða hér í nótt, var lagt fram hér í þessari d., var annað frv. lagt fram þar, líka af stj. Þetta var frv. um skattadómstól, frv., sem hafði eins mikla þýðingu gagnvart sköttunum eins og það, sem hér er verið að afgreiða, frv., sem Framsfl. hefur blásið sig mikið út af, frv., sem Framsfl. var búinn að gera að einu af sínum skilyrðum. Þetta frv. var lagt fram í Ed. sama daginn sem frv. það, sem hér er verið að afgreiða, var lagt fram í þessari d. Og hvernig fór með þetta frv. í þeirri hv. d.? Þarna var gott tækifæri fyrir Framsfl. til þess að sýna, að hann væri duglegur að koma fram áhugamáli sínu, og til þess að fá dómstól í skattsvikum, þannig að hægt væri að knýja fram, að meiri peningar kæmu inn samkvæmt núgildandi skattal. en ella fengjust. Hvað líður þessu frv. nú? N. klofnaði. Vinstri flokkarnir voru í öruggum meiri hl. Sjálfur fyrrv. forsrh. Framsfl. var kosinn frsm. En hvar er nál.? Hvar er framsöguræðan? Og hvar er frv.? Frv. situr í Ed. Er þetta framúrskarandi vinstri samvinna? Það eina, sem hægt er að treysta á, er forusta Framsfl. Þið sjáið hvernig forusta Framsfl. fyrir vinstri samvinnu hefur verið í Ed. Ég held, að þessir menn ættu ekki að belgja sig alveg eins mikið út og þeir gera. Svo skamma þeir fjhn. þessarar d. fyrir það, að hún hafi ekki unnið. Við höfum haldið 54–55 fundi og unnið það mesta að þessu máli, sem hefur verið unnið á þessu þingi. Hvernig stendur á því, að það hefur verið reynt í allan vetur, hvort hægt væri að fá samkomulag við Framsfl. um að stjórna þessu landi, og verið setið með honum á óteljandi fundum í allan vetur, og hver er útkoman? Hún er sú, að Framsfl. hefur dregið málin á langinn, eftir því sem hann hefur getað, og stöðugt unnið á móti hagsmunum verkamanna, en dregið taum bænda eftir megni, en jafnframt látið í veðri vaka, að það væri nauðsynlegt að finna millileiðina. En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, að það er mikið bil milli Sósfl. og Framsfl. í afstöðunni til dýrtíðarmálanna, því Sósfl. vill semja um málin fyrir verkamenn og bændur, en Framsfl. vill fara lýðskrumsleiðina. Svo kemur hv. þm. S.-M. og segir: „Hvers vegna er ekki farin sú leið að reyna hin ágætu vinstri samvinnu? Hvers vegna er ekki reynt samstarf við Framsfl. um lausn dýrtíðarmálanna?“ Nú í vetur hafa 3 menn frá hverjum þessara flokka setið á rökstólum til þess að reyna að finna leið, og aðalmaður Framsfl. hefur verið þar hv. þm. S.-M., en n. hefur ekki fundið neina niðurstöðu. Svo kemur þessi þm. og segir, að þessi ótætis kommúnistar hafi ætlað sér að ná samkomulagi við stríðsgróðamennina og ætluðu að bíða með lausnina þangað til stríðsgróðavaldið gengi inn á þeirra skilmála. En hann gleymir því, að eftir að við vorum búnir að sitja 5–6 mánuði með Framsfl. á fundum, töluðum við í fjhn. saman í 3–4 daga. Eftir að búið var að sitja á fundum í allan vetur, kemur þessi þm. og talar um skemmdarverk, „sabotage“ sem við séum með, og að við séum að spilla öllu þinginu með þessu. Nei, mér finnst nú hræsnin fara nokkuð langt, þegar svona er komið. Í fjhn. voru meiri möguleikar til þess að ná samkomulagi og til þess að fá annan fulltrúa Sjálfstfl. til þess að ganga inn á það en til þess að ná samkomulagi við annan fulltrúa Sjálfstfl. og fulltrúa Framsfl. Svo viljum við ekki samstarf með Framsfl., þótt hann hafi aldrei í 9 manna n. getað komizt að niðurstöðu með Sósfl. og Alþfl. í þessu máli. Hafi hann haft tilhneigingu til þess að gera það, hafði hann tækifæri til þess í fjhn. Ég bar þar fram beinagrind að þeim till., sem við hugsuðum okkur að flytja síðar, og las þær upp á einum fundi í n.

Í sambandi við 1. kafla vildum við fyrirbyggja, að nýbyggingarsjóður gæti farið í taprekstur, þannig að á honum væri ekki kröfuréttur. Viðvíkjandi 3. kafla vildum við setja skatta, sem gæfu minnst 15 millj kr. Þessu fé átti að verja þannig, að 4 millj. skyldu ganga til trygginga gegn atvinnuleysi; nokkuð skyldi ganga til sjóða vegna landbúnaðarins til þess að bæta bændum upp það tap, sem þeir yrðu fyrir af lækkun landbúnaðarafurða, og afgangurinn skyldi ganga til alþýðutrygginga og til framkvæmdasjóðs ríkisins. Við komum í fjhn. fram með till. okkar í sambandi við þetta, en höfum ekki orðið varir við að fulltrúar Framsfl. í n. hafi nokkuð tekið undir þær. Ég lagði það líka til og reyndi að fá tekið inn í frv. ákvæði um alþýðutryggingarnar í sambandi við kaflann um tryggingar gegn atvinnuleysi. Ég reyndi að fá fulltrúa Framsfl. til þess að ganga inn á þetta einmitt í sambandi við það, að ég gekk inn á það, sem hann vildi. Það hafði enga þýðingu, þó að ég reyndi að slaka til, og þó við borgum bændum hvern einasta kjötbita og hvern einasta mjólkurlitra, þá er aldrei slakað til. Það er þó undir einum kringumstæðum, sem Framsfl. vill slaka til, og það er, eins og hv. þm. S.-M. minntist á, þegar verið er að drepa málin í höndunum á þeim. Ég veit, að hann var að hugsa um ákveðið mál í þessu sambandi, bifreiðaeinkasöluna. Sjálfstfl. hafði ekki atkvæðamagn til þess að drepa það mál. Framsfl. og Alþfl. höfðu tækifæri til þess að sigra í því. Ég sagði þeim, að ef þeir væru með einni smábreyt. annars staðar, mundum við ekki sitja hjá. Hvað gerist svo þar? Þeir vildu ekki taka minnsta tillit til þessara óska okkar. Þeir felldu till. okkar. Við stóðum við það, sem við sögðum. Við sátum hjá, en Alþfl. og Framsfl. láta 3 þm. sína vanta og málið er drepið í höndunum á þeim. Svo koma þeir og segja: „Ef við hefðum vitað, að ykkur var svona mikil alvara með þessa breyt., hefðum við verið með henni.“ Þeir hefðu viljað það frekar en að láta drepa málið í höndunum á sér, en þá var það bara of seint. Það sama gildir núna. Við höfðum lagt fram óskir okkar um, að 3 millj. kr. yrðu lagðar til alþýðutrygginga. Framsfl. vildi ekki ganga inn á það, þótt við gengjum inn á allt, sem gat orðið til hags fyrir bændurna. Svo kemur þessi þm. á eftir og segir, að auðvelt hefði verið að fá þetta í gegn, ef þeir hefðu vitað, að okkur var alvara. Þeir halda, að það sé hægt að misbjóða rétti og kröfum verkamanna í þessu sambandi, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar. Ég held, að þessi þm. megi fara að endurskoða afstöðu sína. Ég vil ráðleggja honum að reyna að læra það af reynslunni, að hann viti það, að næsta skipti, sem hann reynir að semja við fulltrúa verkalýðsins, þarf hann að taka tillit til óska þeirra. Þær hafa ekki verið svo ósanngjarnar fram að þessu, að ekki hafi verið hægt að taka tillit til þeirra. Það er ekki ósanngjarnt, að hér séu til almennilegar atvinnuleysistryggingar, þegar þær eru komnar á í öllum öðrum löndum.

Þessi þm. lýsti því yfir að hann vildi taka tillit til óska af hálfu verkalýðsins í þessu sambandi, en hefur ekki viljað ganga svo langt í sambandi við vinstri samvinnu, að hann hafi viljað gera breyt. á framfærzlul. Og þessir sömu menn hafa lagt til, að fátæklingarnir væru klæddir í sérstaka einkennisbúninga, til þess að þeir þekktust úr hér á götum Rvíkur, og að þeir yrðu sviptir kosningarétti. Það væri ekki til einkis unnið, þótt þetta þing hafi lítið gert, ef Framsfl. gæti lært það af því, að þegar verkalýðurinn er að berjast fyrir kröfum sínum, þá er honum alvara, og að þegar kröfurnar eru bornar fram, sé rétt fyrir þá, sem ætla sér að vera með þeim, að vera með. Við kunnum ekki við slíka kaupmennsku, að ætta að bíða, og einhverntíma seinna, þegar allt er orðið of seint, að ætla þá að slá til.

Ef Framsfl. er alvara með að vilja vinna með verkamannastétt þessa lands, er bezt fyrir hann að ganga þegar inn á það ýtrasta, sem hann vill, ef um samkomulag á að vera að ræða. Hitt ætti þessi flokkur ekki að láta koma sér á óvart, ef hann neitar verkamönnum um sjálfsagðan rétt þeirra, þótt verkamannastéttirnar noti sér það, ef þær koma fram rétti sínum og umbótum með tilstyrk annarra.