25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Pétur Ottesen:

Mér þykir ástæða til, af því að hér hafa verið leidd inn í þessar umr. afskipti fjvn. af greiðslum úr ríkissjóði til þess að halda niðri verði á tilbúnum áburði á árinu 1942, að gefa dálitlar upplýsingar um þetta atriði.

Ég held, að það sé rangminni hjá hv. þm. Ísaf. (FJ), að nokkur þál. hafi verið samþ. út af þessu máli. En á síðasta aðalþingi, sem hófst eftir áramótin í fyrra, skrifaði þáv. landbrh., Hermann Jónasson, fjvn. bréf, þar sem leitað er álits n. um það, hvað hún segi við því, að ríkissjóður leggi fram fé til þess að halda niðri verði á tilbúnum áburði á því ári með þeim hætti að greiða þá hækkun, sem orðið hafði á flutningsgjöldum á áburði frá því árið áður. Þetta mál hefur komið hér til umr., og ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, bréf, sem fjvn. skrifaði landbrh. út af þessari fyrirspurn til fjvn. Það er dagsett 27. febr. 1942 og hljóðar svo:

„Landbúnaðarráðherra hefur með bréfi dags. 10. þ. m. skrifað fjárveitinganefnd um fjárveitingu úr ríkissjóði á þessu ári til þess að halda niðri verði á tilbúnum áburði, þannig að hægt verði að selja áburðinn fyrir svipað verð og á síðast liðnu ári. Er gert ráð fyrir, að til þess að svo megi verða, þurfi að veita úr ríkissjóði um 500 þús. kr. Hækkun á áburðarverðinu stafar af hvoru tveggja, hækkun á innkaupsverði og hækkun á flutningsgjaldi. Að því er hækkun á flutningsgjaldi snertir, þá hefur framkvæmdastjóri áburðareinkasölunnar, Árni G. Eylands, tjáð fjárveitinganefnd, að flutningsgjald á áburðinum frá Ameríku muni verða 25 dollarar á smálest, en aftur á móti sé flutningsgjald á sambærilegum vörum, t.d. kornvörum, 20 dollarar á smálest.

Fjárveitinganefnd er því meðmælt fyrir sitt leyti og telur þess þörf, eins og ástatt er, að gerðar verði ráðstafanir til, að útsöluverð á áburðinum þurfi ekki að hækka frá því, sem var á síðast liðnu ári, en teldi æskilegast, að þessu marki yrði náð með því, að ríkissjóður þyrfti ekki að leggja fram í þessu skyni nema allt að 400 þús. kr., en að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að fá áburðinn fluttan fyrir sama flutningsgjald og aðrar sambærilegar vörur, t.d. kornvörur, en við það sparaðist í flutningsgjaldi um 100 þús. kr., og væri þar með fenginn grundvöllur undir það, að útsöluverð áburðarins þyrfti ekki að verða, svo að neinu verulegu nemi, hærra en á síðast liðnu ári.“

Þetta bréf skrifaði fjvn. ríkisstj. Nú veit ég ekki, hvað kann að hafa verið gert út af þessum ábendingum, sem n. gerir þarna um frekari samninga, að því er flutningsgjöld snertir. Á s.l. sumri barst til fjvn. aftur, eins og hv. þm. Ísaf. minntist á, bréf, þar sem lagður er fram af hálfu stjórnar Eimskipafélags Íslands grundvöllur undir flutningsgjöldin. Þetta bréf var tekið til meðferðar í n., og það mun rétt vera hjá hv. þm. Ísaf., að þessi skoðun, sem hann gat um, hafi komið fram hjá einhverjum nm., en ég minnist ekki, hve margir stóðu að því. En hins vegar var engin ákvörðun tekin í n. út af þessu bréfi né neinar samþykktir gerðar í tilefni af því. Ég vildi aðeins upplýsa þetta hér, af því að afskipti hv. fjvn. af þessu máli hafa verið leidd inn í umr. nú.