17.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónsson:

Frambjóðandi Sjálfstfl. á Snæfellsnesi, sem talaði hér áðan, fór nokkrum hastarlegum orðum um framsóknarmenn í sambandi við kosninguna þar, og þar að auki kastaði hann hrakyrðum að Tímanum fyrir afskiptin af kosningunni. Ég hygg að þetta sé nokkurt misminni, því að um þá kosningu var minna talað en margar aðrar. En það mun hafa eitthvað verið prentað í öðrum blöðum, sem hefur gefið þessum háttv. manni tilefni til að vera nokkuð óánægður. En þar sem nú þetta mál hefur verið dregið inn á flokkslegan vettvang, vil ég fyrst taka fram, að þetta bréf, sem lesið var upp, er eftir því sem ég veit bezt, ritað af sjálfstæðismanni. Og hann var svo mikill sjálfstæðismaður, að hann fékk bíl hjá Jakob Möller í sumar. Þess vegna vonast ég til, að menn líti ekki svo á, að þessi maður sé ókunnugur í þeim herbúðum, sem hann talar um. En ég hygg, að þau missmíði, sem urðu á Snæfellsnesi — kannske nokkuð mörg, — séu ekki fyrst og fremst viðkomandi Sjálfstfl. Og eftir því, sem Bjarni Bjarnason talaði við mig, hafði hann allt gott af mótframbjóðanda sínum að segja, sem fékk fleiri atkv. eins og þau voru talin þar. En hitt er annað mál, að vissir menn, sem studdu að kosningu Sjálfstfl., virðast hafa farið nokkuð ógætilega. En það er dálítið heimskulegt að segja, að verið sé að tala illa um Snæfellinga í heild sinni, þó að talað sé um þessi dæmi. Það er t.d. sjálfstæðismaður, sem hefur þegið 50 kr. fyrir að kjósa. Það væri fjarstæða að halda, að þótt slíkar misfellur séu á útköntum kosninganna, þá kasti það skugga á þá aðalflokka, sem eigast við. Hinu held ég fram, að Sjálfstfl. eigi að vera áfram um það, að þetta mál sé rannsakað. Ef komið hafa misfellur hjá okkur framsóknarmönnum, þá er okkur mestur hagur í, að þær séu rannsakaðar. Til þess að skýra þetta ætla ég með leyfi hæstv. forseta að lesa upp litla grein úr Morgunblaðinu frá 20. okt. Þar segir svo:

„Þessi skrif ritstjóra Tímans hljóta að verða að athlægi um gervallar sveitir landsins. Tímamenn eru farnir að tala um mútugjafir við kosningar. Hvílík ósvífni! Hvenær hafa þeir unnið kosningar hér á landi öðruvísi en með mútum? Þeir eru orðnir svo samdauna mútunum og spillingunni, að þeir geta ekki hugsað sér, að aðrir flokkar geti sigrað í kosningum án þess að sömu svikabrögð séu höfð í tafli.“

Ég er ekki að gefa þessum ræðumanni, sem síðast talaði, heilræði, en mér finnst hann ætti að taka þessu máli Kristjáns líkt og við gerðum. Því að þennan dag höfðum við fund í miðstjórninni, og mér var falið að höfða mál gegn Valtý, sem ég gerði, og er það nú fyrir dómstólum. Í þessu aðalblaði Sjálfstfl. er ekki verið að tala um útkanta á einni kosningu, eins og á Snæfellsnesi, heldur hverjar einustu kosningar, væntanlega í 25 ár, og eigum við að hafa verið svo samdauna spillingunni, að við höfum ekki getað hugsað okkur nokkra kosningu öðruvísi en með mútum. Það hljóta nú allir að sjá, hvílík gífuryrði þetta eru, jafnvel um hvaða flokk sem er. Það er ekki svo óalgengt um ofbeldisflokka erlendis, að þeir haldi fram, að aðrir beiti sömu aðferðum og þeir sjálfir. En þessi stóru orð Morgunblaðsins hljóta að verða dæmd dauð og ómerk, hver einasti stafur, því að það hefur ekki verið leiddur grunur að einni einustu kosningu, sem unnin hafi verið með mútum. En ég tek þetta þannig, þó að sjálfstæðismenn hafi ekki sjálfir staðið að slíku, þá hafi þeir vitað um misfellur eins og Kristján Jensson skrifar um. En það er klókt í hernaði að byrja stríðið fyrst. Þess vegna hafa þeir byrjað með þessi fárlegu ósannindi. Af hálfu hv. þm. V.-Húnv. hefur nú verið lagt fram þetta skjal frá þessum sjálfstæðismanni, sem verið hefur í innsta hring í Ólafsvík, því að annars hefði hann ekki verið á fulltrúafundi skömmu fyrir kosningar. Þessi kosning vestra er fallin til að vera stórmál af þessu tagi. Aðalblað Sjálfstfl. skorar á hólm með þessari grein, og við höfum tekið áskoruninni. Og kosningu þessa ber að rannsaka alveg vonzkulaust. Formaður Sjálfstfl. gæti stillt orðum sínum betur í hóf, því að ef kosningin yrði ógild, tapar Sjálfstfl. ekki neinu fyrir það, því að ef mér er rétt frá skýrt, þá mundi hann fá inn í þingið annan mann, svo að tala hans yrði jöfn fyrir því. Hann tapaði Stefáni Stefánssyni fyrir það, að Gunnar var talinn hafa unnið á Snæfellsnesi. Þess vegna, ef um það er að ræða, að þessi kosning sé athuguð og kosið aftur, þá getur Sjálfstfl. engu tapað. Ég skal nú láta liggja á milli hluta skrif Kristjáns Jenssonar úr innsta hring sjálfstæðismanna í Ólafsvík, heldur minnast á það, sem sveigt var að áðan, en það eru síldarmjölsgjafirnar. En áður vil ég þó víkja nokkuð að aðstæðum á Snæfellsnesi. Ég þekkti nokkuð þar til, var á öllum þingmálafundum áður en Thor náði þar kosningu. Við gerðum það, sem við gátum, til að standa með frambjóðanda Framsfl. En Thor hafði fylgi fólksins, gekk betur í augun á Snæfellingum en okkar frambjóðandi og vann kosninguna með miklu meiri hl. Svo tekur Thor við annarri stöðu. Þá útnefnir Sjálfstfl. þennan unga mann til framboðs. Satt að segja höfðu flestir búizt við, að hann mundi vinna kjördæmið, þegar litið var til fornra fylgismanna. Ég áleit flokkinn eins sterkan og þegar Thor komst fyrst að. Frá hendi okkar framsóknarmanna hafði verið heldur lítið starfað síðan Thor vann kosninguna, eins og oft vill verða, þegar skapast meiri hluti, sem ekki eru tök á að brjóta á bak aftur. Nú bar það við s.l. vetur, að Alþfl. bar fram hið svokallaða gæsafrv. Það var ákveðið að gera þann hlut, sem hvergi þekktist í veröldinni, að láta stjórnar skrána veita þeim kjördæmið, sem er í minnihl. í kosningum. Ég ætla að segja það hér, af því að það má gjarnan koma í þingtíðindum, að frambjóðandi Sjálfstfl. í S.- Þing., sýslumaður, hélt því fram í góðri trú á fundum í vor, að þetta fyrirkomulag þekktist í einu landi, Svíþjóð. Þegar ég kom heim, aflaði ég mér vitneskju hjá fulltrúa sænsku stj. og fékk það svar, að þetta væri ósatt. Hann hafði skakkar heimildir. Þetta er ekki til í nokkru landi, þetta vansmíð, sem hér er leitt í lög. Þegar við framsóknarmenn sáum, að átti að gera stjskr. lands okkar að skrípi og brjóta í bága við réttlætistilfinningu kjósendanna með því að búa til kosningalög, þar sem maður, sem hefur mörg hundruð atkvæðum minna en mótframbjóðandinn, getur tekið kjördæmið, þá sögðu sumir þeir menn, sem átti að dæma til dauða, að eins gott væri að berjast við Sjálfstfl. í nýjum kjördæmum. Einn af þeim, sem tók þá hraustlegu ákvörðun að fara í það kjördæmi, sem talið var vonlaust, var Bjarni Bjarnason, 2. þm. Árn. Hann var tiltölulega ókunnugur á Snæfellsnesi, hafði þar heldur engin persónuleg sambönd og enga aðstoð. Enginn aðkominn maður úr flokknum var honum til hjálpar, og ég held ekkert hafi verið gert utan kjördæmisins til að styðja hann, utan með einni blaðagrein í Tímanum, sem ég skrifaði. Af hálfu Sjálfstfl. var tekið nokkuð kröftuglega á þessu máli, formaður flokksins fór vestur og hélt stóra fundi með mönnum sínum, og margir lögðu hönd að verki. Samt fór það svo, að Bjarni Bjarnason vann kosninguna með sinni eigin persónu og málstað sínum. Hann hafði hvorki brennivín né peninga né síldarmjöl, — ekkert nema þann málstað og framkomu, sem samboðin er fullkomnum heiðursmanni. Sjálfstfl. telur sig hafa teflt fram röskum frambjóðanda, sem er rétt, og það kusu 80% af kjósendum, og var góð sókn frá báðum aðilum. Það undarlega kemur fram, að Bjarni Bjarnason vann kosninguna með verulegum atkvæðamun.

Nú hefur nýlega birzt grein í Morgunblaðinu undir dulnefni, heldur hrottaleg lýsing á því, að Snæfellingar hafi talið það ógurlega svívirðingu, þegar Bjarni varð þingmaður, og er helzt talað um hann sem eins konar glæpamann. Og svo segir Mbl., að Sjálfstæðismenn í Snæfellsnessýslu hafi hugsað sér að hreinsa þennan blett af sýslunni með haustinu. allur þorri Snæfellinga var ánægður með það, sjálfstæðismenn líka, að hafa fengið fyrir þm. þann duglega, reynda mann, sem þeir fengu. En héðan úr Rvík komu heildsalar og margs konar fólk, — mætti telja ekki færri en 20 með nafni, — og lágu yfir kjósendum margar vikur með alls konar undirróðri og bænum um að kjósa Gunnar Thoroddsen. Einn af þessu fólki var sá Wilhelm Steinsen, sem í bréfinu er getið. Ef Gunnar verður þm., er hann því ekki þm. Snæf., heldur Rvíkur — kjörinn þm. þm. þess reykvíska fólks, sem mest hefur lagt á sig til að fá hann kjörinn. Á sínum tíma býst ég við, að birta megi skrá um þetta fólk og verður þá safnað dæmum um örlæti þess og fórnfýsi fyrir flokk Gunnars og um allt sjálfboðaliðaerfiði þess. Ég hygg, að eins og fyrr í kosningar byggðust á því, að fólkið vildi heldur Thor Thors en frambjóðanda Framsfl., hafi sigur Bjarna Bjarnasonar s.l. vor byggzt á því, að fólkið vildi hann heldur en Gunnar. Þeir sögðu sem svo: Bjarni Bjarnason er maður, sem þekkir starfslífið og hefur unnið í því og þeim fulltrúa getum við treyst. Gunnar Thoroddsen er að vísu snotur piltur úr Reykjavík og getur verið góður á sínum stað, en hvaða erindi á hann til okkar? — Ég ætla ekki að minnast nema á lítið eitt af þeim dæmum, sem nefnd hafa verið frá þessari kosningu vestra í haust — fyrir utan hinn ósæmilega áróður, sem Sjálfstfl. lét sjálfboðaliða sína úr Rvík halda uppi. Eitt, sem þyrfti að rannsaka, eru áfengisútlátin. Úr engri sýslu annarri komu aðrar eins pantanir um vín til töðugjaldanna. Einn merkismaður, sem búinn var að fá tvo skammta til þeirra, þóttist nauðsynlega þurfa að fá hinn þriðja, — ég veit ekki, hvort hann fékk hann. — Þá er það síldarmálið. Eftir því sem mér er sagt af skilríkum manni úr Hnappadalssýslu um sendingar í þá hreppa tvo, sem liggja sinn hvorum megin Haffjarðarár, voru þar miklar bílferðir, þegar kosningar fóru að nálgast í haust, og á bílunum dýrmæt hlöss, — menn vita, hver fengur síldarmálið er í óþurrkasumri, þegar vitað er, að almennt fá bændur hvergi nærri fullnægt því, sem þeir þurfa og hafa pantað. Það kom í ljós, að sendingarnar voru frá firma einu, sem talið er og telur sig vera einn af máttarstólpum Sjálfstfl. Í öðrum hreppnum var sent á hvern bæ nema til manns, sem var svo nýkominn í hreppinn, að hann var ekki á kjörskrá. Í hinn hreppinn var sent til allra bænda nema 6 eða 7, sem álitnir voru svo stálslegnir Framsfl.-bændur, að við þá þýddi ekki að tala og þess vegna mundu þeir hafa heyjað svo vel, að þeir þyrftu ekki síldarmjöl. Enginn heldur því fram, að þeim, sem fengu síldarmélið, hafi með því verið fyrirskipað að kjósa svo eða svo. En slíkar gjafir eru ákaflega vel til fallnar að hafa kosningaáhrif. Ef ég væri svo auðugur að geta sent hverjum Snæfellingi 1000 kr. að gjöf fyrir kosningar, gæti enginn bannað mér það. Lögbrot væri það ekki, en eflaust mætti hafa áhrif á kosningu með því, og rétt hefði verið að ónýta kosningu, sem unnizt hefði á þennan hátt. Hér á Íslandi hefur safnazt auður á síðustu missirum, — kannske aðeins um stundar sakir, en sem stendur er það meiri auður en handhafar hans sýnast kunna að nota til þarfra hluta og meiri en áður í sögu landsins. Miklu víðar en á Snæfellsnesi hefur verið reynt að hafa áhrif á kosningarnar með þeim auði. Þó að t.d. síldarmél sé ekki sent af neinu öðru en hreinni manngæzku, hefur tortryggni almennings þegar vaknað svo af gefnu tilefni, að jafnvel manngæzkan kann að verða lögð út á hinn verri veg, og er þá ekki að vita, hversu það manngæzkumél og himnabrauð kann að verða launað t.d. á kjördegi í framtíðinni. Sendendur, sem ekki kom til hugar, vitanlega, að biðja um laun, fá e.t.v. þau laun að auka stórum óvirðinguna á stjórnmálaflokki sínum. Ef ríku mennirnir í landinu hafa ekki vit fyrir sér sjálfir, verður Alþingi að hafa það fyrir þá í þessum sökum og dæma afbrot velsæmisins hart, kenna þeim þar með að nota féð öðruvísi og betur.

Það er ekki rétt, að Framsm. séu reiðir vegna Bjarna Bjarnasonar. En það er hörmulegt fyrir Sjálfstfl. og þennan unga mann, sem í framboði var fyrir hann, að hafa mið atkvæðameirihluta á þann hátt, sem nú virðist lýðum ljóst. Ég trúi því, að þessi unglingur hafi ekki tekið þátt í því sem bréfið skýrir frá. En ég hygg, að mér sé alveg óhætt að fullyrða, að þetta sé flokknum hörmulegur ósigur og úr þessu verði sá höfuðósigur Sjálfstæðisflokksins, sem hann megi lenst muna eftir.