05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

82. mál, dýralæknar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki að hafa langa framsöguræðu um þetta frv. Það er flutt af landbn. samkv. beiðni Dýralæknafélags Íslands. Samkv. því er gert ráð fyrir að sami háttur gildi um dýralækna og læknastétt landsins, að yfirlæknir verði í Rvík, er sé ráðunautur stj. í heilbrigðismálum búpenings, hafi eftirlit með embættisfærslu annarra dýralækna, yfirumsjón með sóttvörnum næmra búfjársjúkdóma og innflutningi búfjár og búfjárafurða. Störfum dýralæknisins í Rvík hefur að undanförnu verið svo háttað, að það virðist í alla staði eðlilegt, að sú tilhögun verði lögfest og yfirdýralækni verði greiddur nauðsynlegur skrifstofukostnaður eins og öðrum hliðstæðum embættismönnum. Þetta fyrirkomulag hefur ekki fólginn í sér önnur aukin útgjöld en skrifstofukostnað yfirdýralæknis, en virðist vera í alla staði hagkvæmt og nauðsynlegt til þess að tryggja sem beztan árangur af starfi dýralækna landsins. Þetta er og í samræmi við erlendar fyrirmyndir og í samræmi við aðra læknaskipan landsins, og má gera ráð fyrir, að heilbrigðismálum búpeningsins verði betur borgið með þessari skipan málanna en þeirri, sem nú gildir.