05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Ég get verið fáorður um ummæli hv. þm. Barð., að því leyti sem þau snerta mig, með því að hæstv. atvmrh. hefur lesið það upp úr útvarpsræðu minni á gamlárskvöld, sem ætla má, að hv. þm. Barð. hafi hneykslazt á.

Öllum mönnum með heilbrigðri skynsemi má vera það ljóst, er þeir athuga þau orð í ræðu minni, sem máli virðast skipta í þessu sambandi, að ég hef ekkert sagt eða gefið í skyn, er skert geti öryggi skipa eða siglinga hér, héðan eða hingað á nokkurn hátt. Ég tek einungis til dæmis, hvernig fara mundi, ef sjávarútvegur stöðvaðist hér vegna þess, að hann hætti að svara kostnaði. Af þessu verður engin ályktun leidd um það, að hann sé stöðvaður, og því síður nokkur bending gefin með því um ferðir skipa. Ályktanir í þessa átt eru álíka réttmætar og ef ályktun um hættu fyrir landbúnað væri dregin af dæmi um það, hvernig fara mundi, ef bændur hættu að slá tún sín eða mjólka kýrnar sínar.

Mér er næst að ætla, að hv. þm. Barð. hafi alls ekki hlustað á þau orð, sem ég mælti í útvarp á gamlárskvöld, heldur hafi hann haft sögn annarra, sem misheyrt hafi, misskilið eða rangminnt það, er ég sagði, og hv. þm. virðist hljóta að hafa reist ummæli sín á. Ef svo er ekki, þá er mér óskiljanlegt, hvernig hann hefur getað fengið það út, að ég hafi talað óvarlega, svo að siglingum gæti stafað hætta af.