12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Finnur Jónsson:

Ég vil leyfa mér að gera fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. — Svo er mál með vexti, að undanfarin tvö ár hafa verið samningar við Breta um kaup á mótorvélum, og þeir, sem pöntuðu þessar vélar, vissu ekki fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, að vandkvæði nokkur munu vera á að fá þær, enda þótt þær séu tilbúnar. Ég er ekki viss um, hve margar þessar vélar eru, en hygg, að þær séu á annan tug. Þeir, sem hafa pantað þær, höfðu í hyggju að skipta um vélar í skipum sínum, og ef þessar vélar koma ekki innan skamms, getur það valdið tilfinnanlegum vandræðum. — Það hefur verið tilkynnt, að Bandaríkjamenn hafi í framtíðinni tekið að sér að útvega Íslendingum vélar, en þegar engin trygging er fyrir því, að heppilegar tegundir fáist og enn fremur getur það dregizt lengi, þá vil ég spyrja hæstv. viðskmrh. um, hvað honum er kunnugt um þessi mál, og ef honum er ekki kunnugt um þau, óska þess, að hann afli sér nauðsynlegra gagna og gefi Alþ. skýrslu um þetta.

Ég hef grun um, ef Ameríkumenn taka að sér þessa útvegun, að smábátaútvegurinn bíði allmikla hnekki um lengri tíma.

Ég vona, að hæstv. ríkisstj. beiti áhrifum sínum til þess, að þessar vélar fáist hið fyrsta, til þess að koma í veg fyrir vandræði. Það eru nóg vandræðin hjá smábátaútgerðinni, þótt þetta bætíst ekki ofan á.