12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég sé, að hér í hv. d. eru staddir tveir ráðherrar, og annar þeirra er hæstv. atvmrh. Ég vil því gjarnan mega nota tækifærið og beina til hans einni eða tveimur spurningum.

Eins og kunnugt er, var í 31. gr. l. nr. 78 frá 1938 ákvæði um það, að öll íslenzk skip, sem séu í förum milli Íslands og annarra landa, skuli vera með hleðslumerki og hafa þau skýr. Í 2. málsgr. sömu gr. er sú undantekning gerð, að undanskilin eru skip, sem eru undir 150 rúmlestir, og skip, sem eingöngu eru notuð til fiskveiða o.s.frv. En með l. nr. 38 frá 1942 var þessu ákvæði breytt þannig, að íslenzk skip, sem undantekin séu því að hafa alþjóða hleðslumerki, skuli þó hafa hleðslumerkisborð og hleðsluskírteini; m.ö.o., það átti að setja sérstakt hleðslumerki á togarana og skip, sem flytja fisk á erlendan markað. Samkv. 2. gr. þessara l. frá 1942 var svo fyrir mælt, að atvmrh. skyldi gefa út sérstaka reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis, og ættu l. að koma til framkvæmda, þegar reglugerðin væri gefin út. Mér er kunnugt um, að fyrrverandi ríkisstj. hafði skipað þriggja manna n. til þess að semja þessa reglugerð og afhenda ríkisstj. uppkastið til frekari afgreiðslu. Fyrir nokkru mun þessi reglugerð vera fullsamin og afhent ríkisstj. En reglugerðin mun ekki hafa verið gefin út enn. Sýnist þó full þörf á að hraða þessu máli sem mest, enda mun það hafa verið tilgangur Alþ. þegar l. voru sett, að reglugerðin yrði samin viðstöðulaust á eftir l. Lagaákvæðið var upp tekið, vegna þess að Alþ. þótti nóg um hleðslu togara og annarra skipa, sem sigldu með ísvarinn fisk til Englands. Og síðan l. voru sett, virðist hafa sótt mjög til hins verra í þessu efni. Samkv. gr., sem forseti Fiskifélags Íslands ritaði í „Ægi“ 1941, var hleðsla á togurum 130 tonn, en 1942 komst hún í 160 tonn. Mér er kunnugt um, að skipaeftirlitið hefur orðið að skerast í leikinn út af þessu án þess að hafa heimild til þess að l., vegna þess að reglugerðin er ekki komin út. Skipaskoðunin hefur orðið að létta tvo togara, sem voru svo mjög hlaðnir, að ekki þótti viðlit, að slíkt ætti sér stað.

Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort hann sæi sér ekki fært að gefa út þessa reglugerð sem fyrst, og helzt tafarlaust. Þurfi að vera á því dráttur, vildi ég mælast til þess, að hæstv. atvmrh. gæfi á því einhverja skýringu hér í deildinni.

Þá vil ég einnig benda á, að í samræmi við l. nr. 78 frá 1938 hefur verið gefin út reglugerð um útbúnað skipa, sem eru í förum á ófriðar- og hættusvæðinu. Reglugerðin var sett 10. febr. 1943 og er birt í Lögbirtingablaðinu 19. febr. 1943. Í henni eru mjög ýtarleg fyrirmæli um eftirlit með útbúnaði skipa, sem eru í förum á hættusvæðinu. En 8. gr. er ákvæði um, að Skipaskoðun ríkisins skuli hafa eftirlit með því, að fyrirmælum þessarar reglugerðar sé framfylgt til hins ýtrasta, svo að ekkert skip megi fara til útlanda, nema vottorð Skipaskoðunar ríkisins sé fyrir hendi um, að öll björgunartæki séu í lagi.

Nú er mér kunnugt, að með þeim starfskröftum, sem Skipaskoðun ríkisins hefur á að skipa, er hún með öllu ófær til þess að líta eftir því, að þessari reglugerð sé fylgt. Mér er tjáð það eftir ábyggilegum heimildum. Ég vil því beina því til hæstv. atvmrh., hvort hann sjái sér ekki fært að láta athuga það, hvort reglugerðin raunverulega sé komin til framkvæmda, og hve mikinn mannafla þarf til þess að framkvæma hana.

Ef þetta er ókleift nú, hvort hann geli þá ekki gert ráðstafanir til þess að skipaskoðunin fái aukið starfslið til þess.

Þriðja fyrirspurn mín til hæstv. ríkisstj. er í sambandi við hið hörmulega slys, er m/s Þormóður fórst með allri áhöfn og mörgum farþegum. Eins og ríkisstj. er kunnugt, hafa verið ritaðar um það greinar í blöðin, að þetta hafi verið sérstaklega lélegt skip og raunverulega ekki fært til þeirra flutninga, sem það var lagt í. Og nokkur orðrómur hefur heyrzt í sömu átt meðal almennings og sjómanna. Ég skal fyrir mitt leyti alveg leiða hjá mér, hvort þessar fullyrðingar hafi við nokkur rök að styðjast. Mér er kunnugt um, að fyrir liggur vottorð frá Skipaskoðun ríkisins um það, að skipið hafi verið í haffæru standi. Og mér er kunnugt, að skipið hafði haffærisvottorð til millilandasiglinga. Og hingað til liggja ekki fyrir neinar sannanir um, að slíku vottorði frá Skipaskoðun ríkisins megi ekki treysta. Hinu verður hins vegar ekki gengið fram hjá, að blaðagreinar og almannarómur taka nokkuð í annau streng. En viðkomandi jafnalvarlegu slysi og hér hefur orðið, álit ég ómögulegt að láta slík skrif og slíkan orðróm eins og vind um eyru þjóta. Það er nokkurn veginn sama, frá hvaða sjónarmiði litið er á þetta; allar þessar fullyrðingar hníga í þá átt að bera brigður á gildi vottorða frá skipaskoðuninni, og er alveg óþolandi að liggja undir slíku. Það virðist því óhjákvæmilegt að rannsaka, hvort þessi ummæli hafi við rök að styðjast. Fyrir útgerð skipsins er þetta einnig óþolandi, þar sem hún ber af sjálfsögðu ábyrgð á, hvernig hún útbýr skip sín. Sama má segja um aðstandendur. Þeirra tjón verður af sjálfsögðu ekki bætt. En þeirra vegna virðist óhjákvæmilegt, að eitthvað sé gert í sambandi við þennan orðróm. Þá er einnig fyrir sjómannastéttina í heild og almenning allan ekki hægt að liggja undir þessu. Nauðsynin er því rík, að eftirlit með skipum sé öruggt og því þannig fylgt eftir, að hvorki blöð né einstakir menn geti haft í frammi fullyrðingar um það, að hér sé um einhver afglöp að ræða, án þess að slíkt sé rannsakað.

Sjómannafélögin hér í bænum hafa í tilefni af þessu öllu snúið sér til mín og óskað eftir því, að ég bær í fyrirspurn hér fram við ríkisstj. um, hvort hún sjái sér ekki fært að láta fara fram rannsókn á þessu slysi og sérstaklega í sambandi við haffæri skipsins. En bæði fyrir mína eigin hönd og svo sjómannafélaganna, sem óskað hafa eftir, að fyrirspurnin væri borin fram, vil ég undirstrika það, að í fyrirspurn minni felst engin ásökun, hvorki til eins eða annars, um það, að hér hafi eitthvað verið öðruvísi en vera bar. Fyrirspurnin er eingöngu borin fram vegna blaðaskrifanna og orðrómsins, til þess að fá úr því skorið, hvort nokkur rök séu fyrir honum. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að láta ýtarlega rannsókn fara fram.