27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

83. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur komið frá landbn. Nd. og var samþ. þar. Landbn. þessarar d. hefur orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. án breyt. Frv. þetta fjallar um það, hvað gera skuli þar, sem þannig er ástatt á landi hér, að bersýnileg hætta er á skógar- og gróðureyðingu. Verði sú eyðing ekki stöðvuð nema með fullkominni friðun á skóglendi, en notendur landsins treysti sér ekki til að láta framlög, sem þeim samkv. skógræktarl. er gert að láta, þá geti ríkið kostað þær aðgerðir, sem þarf til að friða þetta skógland fyrir ágangi. En svo verði aftur á móti eigendur að ganga að þeim samningi, að friðunin haldist og ekki sé skeikað frá henni. Og verði nokkur ágalli á því frá hendi eigenda eða notenda, getur Skógrækt ríkisins tekið þetta land í 20 ár í sína fulla umsjá á kostnað eigenda.

Við nm. töldum þetta til bóta við þau skógræktarl., sem áður eru til. Ég játa, að það gæti komið til mála að umorða eina setningu, þar sem segir í miðri 2. málsgr. 1. gr.: „og er ráðh. þá heimilt .... að kosta slíka girðingu að öllu leyti.“ Gæti verið betra orðalag: og er ráh. þá heimilt .... að greiða af ríkisfé kostnað við slíka girðingu. — En þetta verður til athugunar við 3. umr.

Við nm. leggjum allir til, að frv. verði samþ. án breyt. og vísað til 3. umr.