12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Gísli Jónsson:

Mig langar til að skýra dálitið dæmi það, sem hv. 9. landsk. tók. Það er einmitt til sönnunar máli mínu, að skip þetta fékk að sigla hingað frá Bandaríkjunum í svona ástandi og flytja menn. Skipið fékk hins vegar ekki leyfi íslenzka ríkisins til að sigla, fyrr en gert hafði verið við það, nema hvað snertir hinn venjulega frest, sem veittur er í slíkum tilfellum, unz viðgerð fer fram.

Ég vil benda hv. 9. landsk. á, að það er ekki eitt einasta skip, sem keypt hefur verið, sem hefur fengið leyfi til að sigla, fyrr en eftir að viðgerð hefur farið fram, þótt það hafi haft skírteini um, að það væri haffært. Þau hafa þurft stórkostlegar endurbætur, áður en þau hafa látið úr höfn, og er þetta sagt Íslendingum til sóma. Hef ég langtum meiri þekkingu í þessu efni en aðrir hér í d. sökum aðstöðu minnar í starfi mínu. Hitt er annað mál, að það ber að gera allt, sem hægt er, til þess að fyrirbyggja, að slík slys geti átt sér stað eins og Þormóðsslysið.