21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

52. mál, lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Sjútvn. hefur athugað frv. þetta um lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði eystra, og n. var sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Það hefur láðst að prenta hér með nál. umsögn vitamálastjóra um þetta efni, og vil ég því draga hér fram nokkuð það helzta úr umsögn hans um lendingarbætur á þessum stað. Vitamálastjóri segir þar m.a.:

„Frumvarp þetta virðist mér að orðalagi til og uppbyggingu vera nákvæmlega samhljóða því, er samþykkt var fyrir Skála á Langanesi og Skipavík í Strandasýslu fyrr á þessu ári.“ — Og n. bar þetta saman við önnur hliðstæð lög um lendingarbætur. — „Þó eru í 8. gr. nokkur ákvæði, sem heimila hreppsnefndinni eða hafnarnefndinni gjöld til hafnarinnar um það leyti, er verkið er hafið, og álit ég það nauðsynlegt, því gera má ráð fyrir, að hafnargerð þessi eða lendingarbætur, þó ekki séu ýkja stórvaxnar, muni verða nokkur ár á döfinni, vegna þess að hreppurinn er ekki þess fjárhagslega umkominn að framkvæma þetta allt í einu. Þetta eina nýja ákvæði tel ég því til bóta, enda nauðsynlegt.“

Um þetta var n. einnig sammála, að þetta ákvæði væri nauðsynlegt.

Viðvíkjandi þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir, að lendingarbætur á þessum stað mundu kosta, og þeim fjárhagslega bagga, sem ríkissjóði yrði bundinn með þessu, segir vitamálastjóri: „Má telja víst, að upphæð sú, sem frv. gerir ráð fyrir, sé ekki fjarri lagi.“ Og er þetta skrifað með tilliti til þeirra rannsókna, sem vitamálastjóri hefur látið fram fara um þetta verk.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er aðstaða til útgerðar á þessum stað mjög erfið, þó að ágæt fiskimið séu þar skammt undan landi, og er því brýn nauðsyn á að koma þarna upp bryggju, til þess að smábátaútvegur á þessum stað haldi áfram að þróast eðlilega.

Sem sagt, sjútvn. mælir eindregið með því að frv. verði samþ. óbreytt.