04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

52. mál, lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. um lendingarbætur í Bakkagerði í Borgarfirði er komið frá hv. Nd. Hefur sjútvn. þessarar hv. d. haft málið til athugunar og kynnt sér þau gögn, sem fyrir hafa legið í málinu, átt viðtal við hv. flm. um málið, og auk þess eru sumir nm. í sjútvn. þessarar hv. d. mjög kunnugir staðháttum á þessum stað.

Í Borgarfirði eystra er aðeins smábátaútgerð, en vegna hafnleysis er ekki hægt að koma þar við útgerð stærri báta. Eins og allir, sem til þekkja, vita, er Borgarfjörður stuttur og mjög fiskisæll, ef hægt er að sækja til fiskimiða, en á því hefur viljað vera mikill misbrestur vegna þess, hve fjörðurinn liggur opinn fyrir hafátt, sérstaklega norðaustanátt.

Það er langur tími síðan Borgfirðingar fundu sárt til þess, að lífsnauðsyn væri fyrir þá að geta bætt aðstöðu bátanna þar að því, er snertir lendingu. En um hafnargjöld er þar ekki að ræða. Fyrir fáum árum var sá háttur upp tekinn á Alþ. að veita með l. þeim stöðum, þar sem aðeins er um lendingarbætur að ræða, nokkuð svipaða aðstöðu og þeim, sem geta notið hafnarlaga, þannig að ríkissjóður leggi fram styrk til lendingarbóta gegn vissu framlagi frá viðkomandi héruðum, og þá um leið hefur þessum stöðum verið gefin lagaheimild til þess að afla nokkurra tekna, en auðvitað á annan hátt heldur en gert er ráð fyrir í hafnarl., og eru aðaltekjumöguleikar þessara staða þeir að leggja visst hundraðsgjald á allan afla, sem bátar úr verstöðinni fiska. Og hefur verið venja í þessum l. hingað til að setja hámark þessa gjalds 6%. Þessu hefur verið fylgt einnig í þessu frv. Og mér er óhætt að lýsa yfir því, að þeir, sem standa að þessum smáútvegi í Borgarfirði, eru fúsir til þess að leggja á sig þetta gjald til að geta fengið hjálp til þess að koma við lendingarbótum hjá sér.

Nú er rétt að taka það fram, að enn er ekkert byrjað á þessu mannvirki, og ég vil líka láta koma fram hér, að það eru ekki líkur til, að hægt verði að byrja á þessu mannvirki nú í bráð. Vegna þeirrar dýrtíðar, sem nú er, er það ekki heppilegt að byrja bráðlega á því, og erfiðleikar eru líka á að fá efni til slíkra framkvæmda. En Borgfirðingar leggja áherzlu á að fá þessi l. afgr. nú, því að þau gefa þeim heimild til þess að fara nú þegar að safna í sjóð til þessara framkvæmda. Og ég verð að líta svo á, að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. Alþ. að líta á þörf héraðsins í þessu efni, vegna þess að þar er um heldur litið hreppsfélag að ræða, og meining hlutaðeigandi manna er að taka sem minnst lán til þessara framkvæmda, heldur reyna að safna í sjóð til þess að eiga nokkurt fé til að taka, þegar byrjað er á framkvæmdum, svo að ekki þurfi að binda sveitarfélaginu allt of þungan bagga með lántökum. Þess vegna er aðkallandi, að þetta mál verði afgreitt nú þegar á þessu þingi, þó að engar líkur séu til þess að byrjað verði á þessu mannvirki á þessu ári og líkur séu til, að það geti dregizt eitt eða tvö ár, áður en hægt verði að byrja á verkinu.

Sjútvn. hefur kynnt sér málið eftir föngum og leggur einróma til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.