18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

114. mál, hafnarlög fyrir Keflavík

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál, meðal annars vegna þess, að þótt það hafi ekki legið fyrir þinginu áður í frv.- formi, er það mjög vel kunnugt flestum þm. Eins og í grg. segir, hefur útgerð í Keflavík farið ört vaxandi á undanförnum árum, og er þar nú ein af stærstu verstöðvum landsins. Hafnarskilyrði hafa hins vegar verið þar mjög bágborin, og hefur aðallega verið stuðzt við mannvirki, sem einstakur maður lét reisa fyrir nokkrum árum, en hreppurinn hefur nú keypt nýverið. En áður tryggði hann sér fyrirheit þáverandi ríkisstj., þjóðstjórnarinnar sálugu, og fjvn. Alþ. um, að lagt yrði fram af hálfu ríkisins fé til aukinna hafnarbóta, og átti þá kaupverð þessara eigna að skoðast sem framlag af hálfu hreppsins. Nú hefur verið hafizt þarna handa um framkvæmdir á þessu sviði og verkið að sjálfsögðu rekið undir umsjón og eftir fyrirmælum vitamálastjórnarinnar. Verkinu er hagað þannig, að steypt verða þrjú stór ker, sem sett verða niður með nokkru millibili, þannig að framlenging garðsins verður um 40 metrar með þessum kerum og bilunum á milli þeirra, sem einnig verða fyllt.

Þessi nýi garður kemur til með að kosta um 700–800 þús. kr., og hef ég talið öruggara að miða við hærri upphæðina í frv. Heildarkostnaður við verkið mun þá verða um 1100–1200 þús. kr. Til samanburðar má geta þess, að í hafnarl. fyrir Grundarfjörð er framlag ríkissjóðs ákveðið 3/5 kostnaðar, en hér er aðeins farið fram á 2/5.

Þörfin á þessum hafnarbótum er flestum þm. mjög vel kunn. Í óveðrum hafa oft orðið þarna miklir skaðar og slys, og mun auðna mest hafa ráðið, að ekki skuli hafa orðið manntjón, en þarna hafa oft orðið gífurleg fjárhagstjón á einni nóttu. Eins og vitað er, eru líka öll skilyrði þarna miklu lakari en skyldi.

Þetta frv. hefði átt að vera komið fram fyrir löngu, en það er svo stutt síðan, þeir, sem þarna eiga hlut að máli, hafa komið sér niðar á, hvernig verkið skyldi framkvæmt. Ég veit ekki hvaða ráðstafanir Alþ. kann að gera til þess að koma upp landshöfn á Suðurnesjum, en það er líka þessu máli alveg óviðkomandi.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en legg til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.