19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Mér þykir rétt að skýra hinu háa Alþ. frá því, að eins og hv. þm. mun kunnugt, hafa nú um tíma staðið yfir samningar við stjórn Bandaríkjanna um sölu á gærum, og hafa þeir nú borið þann árangur, að stjórn Bandaríkjanna hefur keypt allar þær gærur, sem við viljum flytja út af framleiðslu ársins 1942. Verðið á gærunum er rúmar 3 kr. pr. kg. fob., og er það svo mikið fyrir ofan það verð, sem áætlað var, að fengist fyrir þær um áramótin síðustu, að þessi sala mun spara ríkissjóði um 1350 þús. kr., sem ella hefði orðið að greiða í uppbætur. Jafnframt því, að þessi sala hefur tekizt, — og útskipun er þegar hafin, — hefur stjórn Bandaríkjanna einnig gengizt inn á það að flytja gærurnar með skipum Eimskipafélags Íslands í stað þess að flytja þær með skipum amerísku herstjórnarinnar, sem að jafnaði fara tóm vestur héðan, og fær Eimskipafélagið þannig um 500–600 þús. kr. greiðslu í farmgjöld.

Einnig vil ég skýra frá því, að samningar um sölu á frosnu kjöti til Bandaríkjanna standa nú yfir, og eru þeir það vel á veg komnir, að fyllsta ástæða er til að vænta þess, að góður árangur liggi fyrir innan fárra daga.

En ég vil skýra frá því, að í samráði við síldarútvegsnefnd hefur ríkisstj. gengið frá kaupum á rúmlega 19 þús. tunnum af saltsíld, sem hefur legið á Norðurlandi í tvö ár. Þessa síld ásamt meira magni keyptu Svíar fyrir tveimur árum, en þessi hluti hennar fékkst ekki fluttur vegna ófriðarins. Um þetta hafa nú staðið yfir samningar milli ríkisstjórna Íslands og Svíþjóðar með þeim árangri, að ríkisstj. Íslands hefur nú keypt alla síldina. Síldin er nú boðin fram til fóðurbætis, og er hún talin vera mjög góð vara. Síldarútvegsnefnd mun annast sölu síldarinnar fyrir hönd ríkisstj. Ég vil einnig skýra frá því í þessu sambandi, að sendiráð Svía hér hefur í dag fyrir hönd sænsku stjórnarinnar flutt íslenzku ríkisstj. þakkir fyrir úrgreiðslu þessa máls.