19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Ég bar hér fram fyrir nokkrum dögum fyrirspurn um veðurfregnir, en sá ráðh., sem þetta heyrir undir, var þá ekki viðstaddur hér í deild, en annar ráðh. tók að sér að skila því til hans. Þar sem þessi hæstv. ráðh. er nú víðstaddur, vil ég að nokkru rifja upp þessa fyrirspurn, þar sem þetta er mjög þýðingarmikið mál, einkum fyrir þá, sem stunda sjó.

Ég spurði um það, hvort ríkisstj. væri kunnugt, á hvaða grundvelli veðurstofan byggði nú veðurspár sínar, og hvort ríkisstj. væri kunnugt um það, hvort nokkur samvinna væri á milli Veðurstofu Íslands og þeirra erlendu veðurfræðinga, sem starfa nú hér á vegum setuliðsins. Ef svo er ekki, þá tel ég mjög æskilegt, að ríkisstj. athugi, hvort ekki sé hægt að koma á slíkri samvinnu.

Síðan ég bar fyrst fram þessa fyrirspurn mína, hef ég séð yfirlýsingu frá aðalspámanni veðurstofunnar þess efnis, að veðurstofan hafi ekki annað til að byggja spár sínar á en fréttir frá athugunarstöðvum hér á landi. Það er vitað mál, að ef grundvöllurinn undir spánum er ekki stærri en landið, þá hljóta spárnar að vera mjög óáreiðanlegar. Það hefur líka nýlega sýnt sig, þegar gerði ofsaveður af suðaustri, er allir bátar voru á sjó, og var mesta mildi, að ekki skyldu verða stórslys. Fyrir þessa nótt og morgun hafði veðurstofan spáð hægum vindi af suðri eða suðvestri. Það er því öllum ljóst, að hér er mjög áríðandi að fá einhverja leiðréttingu á, og það væri mjög æskilegt, að veðurstofan gæti fengið einhverjar veðurfregnir í gegnum hina erlendu veðurfræðinga hér á landi, en þannig stæði hún mun betur að vígi með að láta landsmenn vita, ef óveður væri í aðsigi. Það er að vísu öllum ljóst, að þetta er viðkvæmt mál, vegna þess að veðurfregnir eru hernaðarleyndarmál nú á dögum. En þar sem nú er hætt að útvarpa veðurfregnum, þá virðist sem herstjórninni væri varla gerður mikill óleikur, þótt Veðurstofa Íslands fengi tækifæri til þess að vara sjómenn við, áður en slík veður skella á sem nú fyrir fáum dögum. Ég vildi því mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún tæki þetta mál til ýtarlegrar athugunar og geri það sem hún getur til þess, að við þurfum ekki að vera verr staddir en fyrir ófriðinn, ef þess er kostur.