15.12.1942
Neðri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

47. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Hafnarlög þau fyrir Hafnarfjörð, sem nú gilda, voru sett árið 1929, en áður hafði verið látin fara fram rannsókn á hafnarstæðinu, og var hún framkvæmd af erlendum verkfræðingi. Þá tíðkaðist það mjög að leita til erlendra verkfræðinga, þegar um meiri háttar mannvirki var að ræða, og hélzt sú venja enn um nokkur ár. Þessi erlendi verkfræðingur lagði til, að byggður yrði stór hafnargarður og hann einn látinn nægja. En þegar þetta mál var síðan rannsakað nánar, kom í ljós, að betra mundi að breyta til um gerð hafnarinnar, og var þá horfið að því ráði að hafa garðana tvo.

Fyrir þá, sem ekki þekkja til í Hafnarfirði, vil ég geta þess, að frá náttúrunnar hendi er þar eitt hið bezta hafnarstæði landsins. Sá eini galli er þar á, að höfnin er alveg opin fyrir vestanátt, og er þar því jafnan ókyrrð í vestanveðrum til mikilla óþæginda fyrir skip þau, sem þurfa að nota höfnina. Það er því mjög nauðsynlegt að loka höfninni með því að byggja nægilega stóran skjólgarð, til þess að skip geti athafnað sig þar í hvernig veðri sem er. Að þessu var stefnt með setningu hafnarlaganna. Hafnarl. voru sett árið 1929, en stuttu síðar skall kreppan yfir. Bærinn sá sér því ekki fært að leggja út í þetta mannvirki að svo stöddu, og var ekkert gert í málinu um nokkurt árabil. En um áramót 1939 –40 var byrjað að hreyfa þessu máli á ný, og í árslok 1940 var byrjað á verkinu, með því að þá var séð fyrir, að hafnarsjóður gæti lagt fram allmikið fé. Síðan hefur verið unnið sleitulaust að verkinu í nær tvö ár, og hefur verið varið til þess 800–900 þús. kr., en það er nær því öll sú upphæð, sem hafnarl. gera ráð fyrir. Allt um það er þó ekki lokið nema rúmlega hálfum fyrri garðinum. Sú hækkun, sem orðið hefur á kostnaðinum við verkið frá því, sem áætlað var, stafar að nokkru leyti af hækkun á verðlagi, en að nokkru leyti af því, að nú hefur verið ákveðið að hafa garðana tvo í stað eins áður. Það er því augljóst, að auka þarf fjárframlög til verksins, ef það á að ná tilgangi sínum, og það er einmitt sú breyt. á hafnarl. sem frv. fer fram á. Verðlag hefur nú sennilega heldur meira en þrefaldazt frá því, sem það var, er áætlunin var gerð, en þó er ekki farið fram á meira í frv. en að þrefalda upphaflegu upphæðirnar, þar sem tekizt hefur að framkvæma verkið á nokkuð hagfelldari hátt en upphaflega var gert ráð fyrir. – Hafnarnefnd hefur því álitið, að með þeim fjárframlögum, sem frv. gerir ráð fyrir, megi ná viðunandi árangri með því verðlagi sem nú er.

Eins og kunnugt er, eru hafnarskilyrði við sunnanverðan Faxaflóa mjög léleg. Og það hefur verið talað um það hér á hinu háa Alþ., að ríkissjóður yrði sjálfur að taka sér fram um það að kosta að öllu leyti sjálfur hafnargerð við sunnanverðan Faxaflóa til þess að hjálpa útveginum þar. Nú er ég ekki í vafa um það, að ef fullkomin höfn kemur í Hafnarfirði, þá dregur það að verulegu leyti úr þörfinni á því að byggja við sunnanverðan Faxaflóa fullkomna höfn, eins og gert hefur verið ráð fyrir að gera þar fyrir fé ríkissjóðs eingöngu, vegna þess að það er og hefur reynzt á undanförnum árum tiltölulega mjög auðvelt að sækja sjó úr Hafnarfirði, þótt bátar ættu þar heima og kæmu að landi daglega; það hefur verið reynt 2–3 síðustu árin og gefið góða raun. Sömuleiðis hafa bátar utan af landi, sem ekki hafa getað fengið afgreiðslu í Keflavík og Sandgerði og á öðrum ófullkomnum höfnum á Suðurnesjum, sótt til Hafnarfjarðar og stundað veiðar þaðan.

Það er ljóst, að það verður að gera hafnarskilyrði betri á Suðurnesjum, hvað sem Hafnarfirði líður. En það mál er auðleystara eftir að í Hafnarfirði hefur verið gerð góð höfn. Og ég tel eðlilegt, að ríkissjóður taki að sér að 1/3 hluta að styrkja hafnargerð í Hafnarfirði og það sé einhver sá ódýrasti háttur, sem ríkissjóður á kost á, um að bæta úr erfiðleikum vegna hafnleysis við Faxaflóa. Þess vegna ber að lita á þetta mál einnig frá því sjónarmiði.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að fara um þetta mörgum fleiri orðum. Þessar upphæðir eru náttúrlega nokkuð háar. En það er ekki hægt að nefna neina hafnargerð, hversu lítil sem hún er og ófullkomin, án þess að hún kosti geysiháa fjárupphæð. Og ég endurtek það, að ef ríkissjóður kemst af með það að leggja hér fram aðeinis 1/3 hluta kostnaðar af því, sem fullkomin og góð höfn í Hafnarfirði kostar, þá er það langódýrasta aðferð, sem ríkissjóður á kost á til þess að leysa vandræði vegna hafnleysis við Faxaflóa, auk þess sem það bætir úr brýnni nauðsyn Hafnfirðinga sjálfra.

Það eru að vísu ekki leyst að fullu hafnarmálin þarna syðra, þó að garðarnir séu byggðir. En ég geri ráð fyrir, að hafnarsjóður eigi hægara með að kosta það, sem eftir er, þegar þeir eru komnir, ef þessi lausn fast á málinu.

Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að leggja til. að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.