19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Þetta virðist ætla að snúast upp í eldhúsumr. um þessi mál, en ég hef ekki hugsað mér að halda áfram í þeim dúr. Ég vil þó leyfa mér að svara hv. þm. Vestm. nokkrum orðum. Ég gat ekki skilið hann á annan veg en að hér væri allt komið í voða í sambandi við innflutningsverzlunina fyrir aðgerðir núverandi stj., og mér skildist, að ég mundi vera mjög hættulegur maður í þessu starfi gagnvart verzluninni. Ég verð að segja það, þó að ég sé að svara fyrir sjálfan mig, að mér finnst þetta koma úr hörðustu átt, en ég skal ekki fara nánar inn á það. Þó að ég hafi afskipti af þeim höfuðlínum, sem viðskiptaráð vinnur eftir, hef ég að sjálfsögðu ekki afskipti af daglegum störfum þess, og það getur margt verið þar, sem ég veit ekki um, að gerist, fyrr en það sýnir sig, að viðskiptaráð hefur farið yfir þau takmörk, sem því hafa verið sett. En í sambandi við timburinnflutninginn, sem hv. þm. gat um, get ég upplýst það, að samkv. því innflutningsprógrammi, sem getið hefur verið um og stjórn Bandaríkjanna hefur samið, þá er okkur ætlað ákveðið magn af timbri til innflutnings, og það hefur ekki enn komið á daginn, að við fáum ekki þetta magn. Í því sambandi skal ég upplýsa það, að stjórnir Bandaríkjanna og Kanada hafa selt allt sitt timbur undir ráðstöfun sérstaks ráðs, sem ráðstafar timbri þessara tveggja landa eftir því, sem stjórnir þeirra telja nauðsynlegt í sambandi við rekstur ófriðarins. Ég hef sem sagt ekki orðið þess var, að enn hafi komið á daginn, að brugðizt hafi loforð, sem okkur hafa verið gefin um afhendingu á þessari vöru. Hitt er svo annað mál, að í þessu sambandi hefur Kanada ekki skyldur gagnvart Íslandi um afgreiðslu á timbri, þótt hins vegar það sé gert í góðri samvinnu við Bandaríkin og af vinsemd við Íslendinga. Um bann á innflutningi vissra vörutegunda get ég gefið honum þá skýringu, að það er að vísu rétt, að viðskiptan. hefur gefið fyrirskipanir um, að vissar vörutegundir verði ekki að svo stöddu fluttar til landsins, þ.e.a.s. á meðan verið er að koma heim öllum þeim nauðsynlegu vörutegundum, sem hafa legið fyrir vestan. Og þetta er gert aðeins til þess, að þær vörur hafi forgang, sem taldar eru nauðsynlegar, en þær vörur, sem þar liggja og telja má miður nauðsynlegar, eru látnar sitja á hakanum. Það er viðskiptaráði ljóst, að það verður að taka tillit til þeirra vara og greiða fyrir mönnum, til þess að þær vörur nái til landsins. En það hefur verið tekið fram, frá því fyrst var farið að tala um þetta, að það yrði gert á þeim grundvelli, að nauðsynlegustu vörurnar gengju fyrir. Og það er stefna, sem er ríkjandi og verður ríkjandi, meðan ég hef með þessi mál að gera.

Hitt er annað mál, sem sumir virðast ekki laka mikið tillit til, að viðskiptaráð, sem ekki er stofnað fyrir löngu, hefur þurft að taka við málum, sem, — eins og hv. þm. komst að orði, — mun hafa verið í talsverðum ólestri, og þess vegna hefur þurft að gera ýmsar ráðstafanir til þess að geta unnið starfið með þeim hætti, sem stefnt hefur verið að.

Ég ætla svo ekki að fara út í frekari deilur um þetta efni. Ég þarf ekki að endurtaka það, að ég mun að sjálfsögðu gera allt, sem unnt er, til þess að starf viðskiptaráðs geti farið vel úr hendi og þannig, að það komi alþjóð manna að sem mestu gagni.