06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Pétur Ottesen:

Ég ræddi nokkuð um þetta mál, þegar það lá fyrir d. fyrir tveimur dögum síðan, og hæstv. forseti varð við tilmælum frá mér um að fresta málinu með tilliti til þess, að ég hafði í huga að bera fram brtt. við það. Ég gerði þá grein fyrir því, að auk þess sem þetta frv. felur í sér heimild fyrir ríkisstj. að taka til athugunar að láta byggja hús, þar sem þm., sem eru búsettir utan Rvíkur, gætu haft bústað um þingtímann, og auk þess að athuga möguleika til að leigja hús, þá bæri einnig að mínum dómi að athuga um hagnýtingu í þessu augnamiði á þeim húsakosti, sem ríkið hefur nú yfir að ráða. Benti ég á þá breyt., sem orðin er á æðstu stjórn landsins, að í stað þess, að forsætisráðherra var æðsti embættismaður landsins, er nú tekið upp það fyrirkomulag, að ríkisstjóri er æðsti embættismaður landsins og hefur verið falið það hlutverk, sem forsrh. hafði áður, að standa fyrir móttöku útlendra gesta og annarra af hálfu landsins og hefur verið veitt aðstaða til að geta innt þetta af hendi með sómasamlegum hætti á okkar mælikvarða. Við þá breytingu, sem hér er á orðin, virðist mér ekki ástæða til að leggja forsrh. til bústað frekar en öðrum ráðh., þar sem annar embættismaður ríkisins hefur tekið við þessu hlutverki, sem hann hafði áður. Ég vil því koma því á framfæri, hvort ekki væri rétt að athuga, hvort ekki kynni að vera hagkvæmt, að þetta hús, forsrhbústaðurinn, væri tekinn til þeirra nota, sem ræðir um í frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég hef því lagt til í þeirri brtt., sem ég ber hér fram, að bætt sé inn í frv. nýrri gr., þar sem vikið er að því, að þyki stj. hagkvæmt að taka til þeirra nota, sem í 1. gr. segir, þá húseign, sem forsrh. er ætluð til bústaðar, þá megi stj. leita samkomulags við forsrh. um að sleppa tilkalli til bústaðarins með þeim kjörum, sem um semur, því það leiðir af sjálfu sér, að meðan í gildi eru l., sem ákveða forsrh. leigulausan bústað, verður að fara samningaleiðina gagnvart honum. Ég held, að brtt. mín sé þannig úr garði gerð, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að hím verði sett inn í frv. sem ný gr., svo að þessir möguleikar yrðu jafnframt til athugunar fyrir stj.

Mér þykir svo ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum, og því síður, sem ég hef rætt þetta mál við þær umr., sem fram fóru um þetta fyrir tveimur dögum hér í d.