06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki fara út í neinar deilur út af brtt. Hún felur ekki annað né meira í sér en ábendingu til ríkisstj. um að taka þetta til athugunar ásamt öðrum leiðum, sem bent er á.

Hv. 1. þm. Árn. finnst ekki annað koma til mála en að forsrh. hafi slíkan bústað, að hann geti tekið á móti tignum gestum og haldið þar uppi risnu eins og áður, en nú er orðin breyt. á æðstu stj. landsins og æðsta embættismanni ríkisins séð fyrir slíkri aðstöðu á Bessastöðum. Auk þess þarf ekki að fara saman, að sami maður sé forsætis- og utanríkisráðh., og þyrfti þá að reisa þriðja bústaðinn til að tryggja utanríkisráðh. að geta haldið uppi risnu, ef ráðh. þrátt fyrir þá breyt. á stj. landsins, sem ég nefndi, þyrftu að halda uppi sömu risnu og áður. Ekkert hefur þó komið fram um slíkt hér, nema hvað utanríkisrh. hefur í heimildargr. 3000 kr. til risnu.

Við Íslendingar höfum keppt að því um nokkrar aldir að verða fullkomlega sjálfstæðir, en við megum ekki missa sjónar af því, að við getum ekki látið fé af mörkum til að haga okkar málum eins og heimsveldin geta gert. Við megum ekki ganga svo langt að stæla það, sem annars staðar er, og setja okkur í þær kringumstæður, sem gætu orðið okkur fjötur um fót.

Hitt er annað atriði, hvað kosta mundi að breyta húsinu í þingmannabústað. Um það hef ég ekki aðstöðu til að dæma, og hygg ég, að hv. 1. þm. Árn. skorti líka þá þekkingu, sem til þar í til að fella dóm um, hvort betra væri frá því sjónarmiði séð.

Hv. 1. þm. Árn. minntist á það réttilega, að komið gæti fyrir, að forsrh. landsins ætti heima annars staðar en í Rvík, en þetta sama snertir líka hina ráðh., svo að þeir eru allir jafnt á vegi staddir um það, og yrði vitanlega að gera eitthvað til að útvega þeim bústaði.

Ég held fast við brtt. mína, sem aðeins felur í sér ábendingu til ríkisstj. um að taka þetta til athugunar. Ég þarf ekki að nefna, að mér er áhugamál, að hér sé eitthvað að gert, enda hafa erfiðleikarnir í þessu efni sagt til sín áður. Þm. hafa oft orðið að búa hér við erfið skilyrði, og get ég tekið undir það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um þá hlið málsins.

Ég verð nú að fara af fundi og get því ekki verið við það, sem eftir er af þessari umr., en ég hef enga ósk borið fram um það að fá atkvgr. frestað. Það verður allt að ganga sinn gang, bæði þær brtt., sem liggja fyrir, og málið sjálft.