06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð. Af gefnu tilefni vil ég taka það fram, að mér er fullkunnugt um húsnæðisvandræðin hér í bænum, bæði fyrir innan- og utanbæjarmenn og þá einnig þm. Vil ég nú vekja athygli á því, að einn flm. brtt. á þskj. 283 er utanbæjarþm., og hann þekkir vel þessi vandræði. Við viljum þó ekki með þessari brtt. okkar bregða fæti fyrir frv., heldur erum við því fylgjandi, en við viljum fella niður heimildina til þess að láta kaupa eða reisa hús handa þm. Það er engin ástæða til þess að álíta, að málið sé eyðilagt, þótt þessi brtt. okkar verði samþ.

Það hefur verið haft á orði nú undanfarið, að íslenzka þjóðarbúið sé að verða yfirbyggt, og mun þá átt við, að svo sé í óeiginlegum skilningi. En mig langar nú til þess að skjóta því fram, hvort ríkið sé nú ekki orðið yfirbyggt í bókstaflegum skilningi og hvort ekki sé varhugavert að ráðast í fleiri opinberar byggingar að sinni. Það er ákaflega margt, sem er ekki hægt að komast hjá að byggja. En við þurfum að neita okkur um að verja fé til þess, sem er ekki allskostar nauðsynlegt. Það gæti víssulega verið ánægjulegt fyrir okkur að eiga dálitla höll handa þm. hér í Miðbænum, þar sem hægt væri að hafa klúbb, veitingasal og önnur þægindi, en ég held, að það sé margt annað, sem verði að sitja fyrir.

Þegar verið er að tala um það, hve mjög sé eytt fé ríkissjóðs, þá mega menn líka vita, að heimildarlög eins og þessi koma til með að orsaka útgjaldaliði í fjárlögum fyrr eða síðar.