19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Ég þakka hæstv. atvmrh. fyrir það, að hann hefur þegar tekið til athugunar þær fyrirspurnir, sem ég bar hér fram fyrir tveimur dögum út af veðurfréttum. Og ég vænti þess, að hann geri allt, sem í hans valdi stendur, til þess að koma þeim í betra horf en nú er, þótt ekki væri annað en að freista þess að fá þá samvinnu við þá erlendu veðurfræðinga, sem hér eru, að þeir létu okkur vita um, ef stórviðri væri í aðsigi, en íslenzku veðurstofunni væri ekki kunnugt, þannig að hægt væri að sima það út til verstöðvanna.

Ég get einnig lýst ánægju minni yfir því að heyra, að ríkisstj. hefur ritað sendiráðinu í London ýtarlega viðvíkjandi þessum vélum, sem Bretar hafa lofað okkur og samningar eru orðnir nærri tveggja ára gamlir um, og vænti ég þess, að þetta beri einhvern árangur. Það er líka gleðilegt að heyra, að ríkisstj. hefur sent mann til Ameríku í þessum erindum fyrir nokkuð löngu. En sannarlega má segja, að árangur af þeirri sendiför er mun magrari en menn hefðu. getað gert sér hugmynd um. Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að nýlega hefði komið tilboð um að selja okkur 18 bátavélar frá Ameríku, og virtist hann nokkuð undrandi yfir því, að það hefðu aðeins gefið sig þrír kaupendur fram að þessum vélum. En ég er ekkert undrandi yfir þessu, vegna þess að tilboð um þessar vélar er aðeins um tvær stærðir, 50 hestafla og 240 hestafla, að því er mér hefur verið tjáð. 50 hestafla vélar eru ekki hæfar í báta yfir 12 eða 13 smálestir, og það eru ekki mjög mörg skip í íslenzka skipaflotanum, sem þurfa 240 hestafla vél. Það er ekki gefinn þarna neinn kostur á að fá kaup á þeim vélum, sem algengastar eru í íslenzka skipaflotanum, sem eru 110 til 1si0 hestafla vélar. Ég hefði talið, að það hefði verið ákaflega nauðsynlegt að fá Fiskifélagið til þess að taka upp skýrslu um, í hve mörgum skipum og bátum þyrfti að endurnýja vélar á næstunni, og að það mál yrði tekið upp gegnum utanrrn., hvort sem það yrði í Bretlandi eða Washington eða hvort tveggja. Það er vitanlegt, að fiskframleiðsla okkar er í raun og veru einn þáttur í hernaði Bandamanna, meðan þeir telja sér nauðsynlegt að fá fiskinn til að neyta hans. Og hvorki mundi Breta né Bandaríkjamenn muna nokkuð um það að sjá um, að við hefðum þær vélar, sem við þyrftum til framleiðslunnar, alveg eins og ég geri ráð fyrir, að þeir sjái sínum skipum farborða að þessu leyti. Og ég held, að það sé meir en ástæða til þess, að tekið sé nokkru fastar á þessu máli en verið hefur. Bretar munu hafa verið búnir að lofa hingað til lands nokkuð mörgum mótorvélum og munu hafa verið búnir að smíða þær fyrir íslenzka fiskibáta, og menn eru búnir hér að bíða eftir þessum loforðum þeirra sumir í tvö ár. Og það hefur legið fyrir útflutningsleyfi fyrir þessum vélum í Bretlandi þangað til alveg nú fyrir skemmstu. Það eru margir, sem hafa borið nokkurn kviðboga, vegna þess að þeir eru með gamlar vélar í bátum sínum frá Norðurlöndum, um, að þeir gætu ekki fengið í þær neina varahluti. Og þeir hafa þess vegna talið sig nokkuð trygga, þegar þeir voru búnir að fá vélar frá Ameríku. En hvað hefur svo skeð með þessar vélar frá Ameríku? Ég hef það fyrir satt frá einu firma, sem selt hefur nokkuð margar vélar frá Ameríku tvö síðustu árin, — og menn hafa haldið, að þeir gætu fengið varahluti í þær —, að þetta firma hafi fengið nýlega símskeyti um það, að „principielt“ væri neitað að láta af hendi nokkra varahluti í þessar vélar frá Ameríku. Það koma svo fram bilanir í þessum vélum sama sem nýjum, og eru vélarnar þá sama sem ónýtar, eins og gömlu og góðu Norðurlandavélarnar okkar, sem við getum ekki fengið varahluti í.

Ég tel þetta atriði, sem nauðsynlegt sé að fá athugað af ríkisstj. Það getur ekki samræmzt neinu, sem heitir hagkvæmir viðskiptasamningar, í fyrsta lagi að neita okkur um nauðsynlegar vélar í fiskiflota okkar, sem er að framleiða fisk handa Bandamönnum, og í öðru lagi að neita okkur um varahluti í þær fáu vélar, sem búið er að selja hingað frá Ameríku.