21.01.1943
Neðri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

48. mál, hafnargerð á Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Við 1. umr. þessa máls skýrði ég málið nokkuð hér í hv. d. í viðbót við það, sem fram er tekið í grg. frv. Og á þskj. 236, sem hefur að geyma nál. hv. sjútvn., er prentað fylgiskjal frá vitamálastjóra, sem gefur enn fyllri skýringar um þetta mál. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar en þegar er búið, nema sérstakt tilefni gefist.

En ég vil aðeins taka það fram, að það mun nú þegar vera lokið við þá athugun, sem var unnið að í sambandi við þetta mál í vitamálaskrifstofunni. Og sú athugun mun sýna, að tölur þær, sem standa í frv., munu ekki fjarri lagi, en þó sízt of háar.

Ég vil svo þakka hv. sjútvn. og vitamálastjóra, hv. þm. Hafnf., fyrir vinsamlegar till. í þessu máli, og vænti þess, að þetta frv. nái samþykki þessarar deildar.