26.11.1942
Efri deild: 4. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

6. mál, sala Stagley

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Eins og getið er um í grg. fyrir þessu frv., hefur Flateyjarhreppur óskað eftir að fá keypta eyjuna Stagley á Breiðafirði. Þessi eyja fylgdi með í Reykhólatorfunni, þegar ríkið keypti hana á sínum tíma, en hún liggur svo langt frá Reykhólum, að hún hefur aldrei síðan verið nytjuð þaðan, heldur hefur hún verið leigð til Flateyjarhrepps, sem notar hana fyrir ábúendur Bjarneyja. En þeir eru svo að segja slægnalausir og hafa ekki ástæður til að afla heyja nema frá þessari og öðrum nærliggjandi eyjum. Það er því nauðsynlegt fyrir Flateyjarhrepp að fá þessa jarðeign keypta til þess að gera bændum á Bjarneyjum hægra fyrir um heyöflun fyrir fénað sinn. Vænti ég þess, að hv. þd. mæli með því, að þetta nái fram að ganga.

Um b-lið frvgr. vil ég segja það, að þessi jörð, sem er lítið kot inni í Arnarfirði, hefur verið í eyði síðan 1937. Öll hús hafa verið seld af jörðinni til ábúanda næstu jarðar, Magnúsar Kristjánssonar að Langabotni. Tún er svo að segja ekkert á jörðinni, en góð beit. Það má telja, að engin líkindi séu til þess, að þessi jörð verði byggð aftur. Aftur á móti er í Langabotni mikið skóglendi, sem líklegt er, að tekið verði til friðunar á næstu árum, m.a. vegna þess, að þar í hlíð nokkurri nálægt bænum er merkur sögustaður, Einhamar, þar sem Gísli Súrsson var veginn. Það er líklegt að skógræktarstjóri geri bráðlega um það till., að þetta land verði tekið til friðunar, en þá yrði gengið of nálægt beitilandi Langabotns. Það mætti aftur á móti bæta upp með því að gefa búandanum þar kost á að fá jörðina Sperðlahlíð keypta.

Ég tel þetta nægilegar upplýsingar og vænti þess, að málið verði sent til hv. fjhn. og fái þar góðar viðtökur.