09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er hér kominn. En ég ætlaði að bera fram til hans fyrirspurn út af því, að í Morgunblaðinu í morgun og, að ég hygg, líka í Alþýðublaðinu hefur frá því verið skýrt, að hann, hæstv. dómsmrh., hafi gefið Halldóri Kiljan Laxness leyfi til útgáfu á Njálu samkv. heimild, sem hann hefur í lögum þar um. Nú er það kunnugt, að fyrir nokkrum dögum hefur þessi hv. þd. samþ. rökst. dagskrá, þar sem því er beint til hæstv. ríkisstj., að komið verði með l. í veg fyrir það, að út verði gefnar afbakaðar útgáfur af Íslendingasögunum. Það liggur fyrir í skjölum þess máls, að eins og oft hefur verið sagt áður — útgefandi þessi hefur gefið út Laxdælu. og flestir fræðimenn í þeim efnum segja, að við samanburð á þessari útgáfu og hins vegar útgáfu þeirri af Laxdælu, sem þessi útgáfa Laxness byggist á, komi í ljós, að í útgáfu Laxness af sögunni sé fjölmörgu, sem á engan hátt verði talið til stafsetningar, breytt: „a. Ýmiss konar breytingar eru gerðar á orðmyndun. b. Orðum er sleppt. c. Orðum er bætt inn í. d. Skipt er um orð. e. Orðaröð er breytt. f. Bætt er inn heilum setningum eftir útgefandann.“ Enn fremur segja þeir í áliti sínu um þetta efni: „Meðferð sögunnar er á þá leið, að stórfelldar efnisbreytingar hafa verið gerðar á henni: a. Einstökum greinum er sleppt. b. Heilum köflum er sleppt, t.d. á einum stað 5 kapítulum. c. Einstakar setningar eru færðar til. d. Kaflar eru færðir til. e. Samdar eru setningar inn í textann, þar sem útgefanda hefur þótt nauðsyn til bera.

Allar þessar breytingar rýra stór lega efni sögunnar og breyta svip hennar, svo sem gerð var grein fyrir á fyrrnefndum fundi.“

Þetta mál hefur verið rætt hér ýtarlega, og ég skal ekki fara mjög út í það nú. En það er ein hlið enn á þessu máli, að fyrir útgáfu á annarri Íslendingasögu, sem var nú gefin út með þeim hætti, að vægast sagt var stórleg móðgun að gagnvart Alþ., er þessi sami rithöfundur undir opinberri ákæru samkv. kröfu dómsmrn. Og verð ég að segja, að hvað sem líður deilunni um Íslendingasögurnar að öðru leyti, þá tel ég það stríða á móti almennu velsæmi og virðingu fyrir réttargæzlu í landinu, að þessi maður skuli, á meðan hann er undir opinberri ákæru fyrir brot á l., fá leyfi ráðuneytisins fyrir útgáfu á þessu verki, Njálu. Og ég hreyfi þessu ekki hér sem varðandi það deilumál, sem var hér til umr. á dögunum þessu viðkomandi. Það er önnur hlið málsins, hvort við viljum halda við þessum l. eða ekki. En meðan l. eru í gildi og meðan enn er sýnt, að Alþ. óskar ekki eftir, að þau séu afnumin, heldur miklu frekar á þeim hert, og meðan liggur fyrir ákæruskjal frá flestum okkar fornfræðavísindamönnum um, að þessi höfundur hafi afbakað útgáfu annarrar sögu, bæði að orðalagi og efni til, og meðan þessi maður liggur undir ákæru fyrir brot á l. og hæstiréttur á ódæmt í því máli, þá tel ég það svo ótrúlegt, að ég vil ekki trúa því, að Alþýðublaðið fari rétt með það, að dómsmrn. hafi veitt þetta leyfi, og vil ég því spyrja hæstv. dómsmrh., hvort það sé rétt.