11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

7. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hv. þm. V.-Sk. heldur því fram, að verði frv. samþ. með brtt. n., þá yrði það sýslufélagi Rangárvallasýslu í óhag. Ég get ekki viðurkennt þetta. Hins vegar get ég fallist á það, að það mætti bæta frv. með brtt., enda þótt við flm. séum í aðalatriðum ánægðir með það eins og það er. N. var sammála um það, að rétt væri að byggja á till. vegamálastjóra, þar sem hann er manna fróðastur um þessi atriði.

Það, sem hv. þm. sagði um 3. liðinn, að miklu meira kæmi til mála með að þurfa að gera innan Hlíðarenda en það, sem fælist í 3. lið, er bara allt annað en það, sem upplýsingar vegamálastjóra gáfu í skyn. Ég leitaði upplýsinga hjá vegamálastjóra, og upplýsti hann, að einn garður nægði hjá Barkarstöðum til þess að vernda Innhlíðina, enda kæmi Þverárgarðurinn hjá Háamúla. Mér finnst ástæðulaust að gera lítið úr þeim breyt., sem fást á lögunum með því að samþykkja frumv. eins og það nú er, þótt æskilegra hefði verið að fá það samþ. í því formi, sem það upphaflega var.

Áætlun vegamálastjóra er, að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir kosti um 2 millj. kr. og hlutur sýslufélagsins 175 þús. kr. En samkv. frv. á að losa sýslufélagið við að greiða þá upphæð, og það álít ég mikils virði fyrir sýsluna og leið að því takmarki, sem við stefnum að. Aftur á móti er ekkert nema gott eitt um það að segja, ef hv. þm. V.-Sk. gæti lagt þessu máli eitthvert lið til gagns. Meðan hann var þm. Rangæinga, hafði honum ekki tekizt að losa sýsluna við þennan bagga, enda þótt ég hljóti að álita, að hann hafi haft fullan huga á því. Rangæingar munu telja, að 175 þús. kr. séu mikið fé fyrir sýsluna, og ekki telja það ámælisvert fyrir þingm. kjördæmisins að losa sýslufélagið við slík útgjöld. Við flm. frv. munum fagna hverjum liðsmanni í þessu máli og ekki misvirða það, þótt hv. þm. V.-Sk. reyni að gera lítið úr þeim árangri, sem næst með frv.