13.01.1943
Neðri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

7. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Sveinbjörn Högnason:

Eins og ég hafði boðað við 2. umr. þessa máls, þá flyt ég nú brtt. á þá leið, að 3. liður í 1. gr. orðist svo: „Varnargarða innan Háamúla í Fljótshlíð og sunnan Markarfljótsbrúar undir Eyjafjöllum, eftir því sem þurfa þykir til að verjast eyðingu gróðurlendis á þessum slóðum.“

Eins og ég tók fram við 2. umr., þá eru með þessu frv. felld niður og takmörkuð réttindi sveitarinnar til framlaga úr ríkissjóði frá því, sem verið hefur til byggingar annarra vatnagarða í Innhlíðinni en um getur í frv. Ef fleiri yrðu gerðir, þá kæmu þeir undir lægra framlag úr ríkissjóði.

En þar sem ætlunin með þessu máli hér í þinginu er sú, að það verði til hagsbóta fyrir sveitirnar í kring, til að létta á þeirra framlagi, eins og annars hefur orðið, þá taldi ég einnig sjálfsagt, að þetta yrði leiðrétt til samræmis. Ég gat þess einnig, að eftir samveitingu vatnanna væri hætt við flóðum í Markarfljóti. Mér þykir sanngjarnt, að varnir vegna þess verði greiddar að sama hluta og 3. liður í 1. gr. eða jafnvel að öllu leyti, þar sem hér er um samgöngunauðsyn, en ekki landvörn að ræða. Ég væri svo þakklátur hv. fjhn., ef þetta yrði samræmt eftir till. minni.