17.12.1942
Neðri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

55. mál, eignarnámsheimild á Höfn í Siglufirði

Pétur Ottesen:

Ég vil benda á eitt atriði í sambandi við þetta mál til athugunar fyrir þá, sem fá það til meðferðar. Það hefur hvergi komið fram, hvorki í grg. né framsögu, að bæjarfélagið hafi leitað kaupa á þessum jörðum af eigendum þeirra, en hins vegar er það regla, að Alþ. veiti því aðeins slíka heimild, að bæjarfélag hafi ekki átt þess kost að fá jarðirnar keyptar með öðru móti. Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. þm. Mýr. Það virðist sem bæjarfélög eigi þess sæmilegan kost samkv. sérstakri löggjöf um þetta efni að fá keypt þau ræktunarlönd, er þau þarfnast, eftir að dómbærir aðilar hafa látið uppi sitt álit. Það nær vitanlega ekki nema til nokkurs hluta af því, sem farið er fram á í þessu frv., sem sé þörfinni á ræktunarlandi, en það leysir líka algerlega þann hlutann. Að því leyti er frv. óþarft. En hitt er frumskilyrði slíkrar heimildar, að búið sé áður að reyna að fá löndin keypt.