17.12.1942
Neðri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

55. mál, eignarnámsheimild á Höfn í Siglufirði

Flm. (Áki Jakobsson):

Ég gat þess ekki áðan, hvaða samningar hafa farið fram um kaup á þessum jörðum, en það hefur verið reynt að fá þær keyptar. Á meðan ég var bæjarstjóri á Siglufirði, var t.d. mikið reynt til að fá Hafnarland keypt. Hins vegar hefur bæjarstj. hikað við að gera ákveðin tilboð í jarðirnar, því að þau mætti þá nota sem grundvöll að fasteignamati. Hins vegar hefur verið reynt að fá eigendurna til að gera tilboð um sölu jarðanna. en það hefur ekki tekizt. Að því er Staðarhól snertir, varð samkomulag um, að bærinn fengi jörðina fyrir 17 þús. kr., en þegar til kom, var ekki hægt að fá fram löglegt afsal, því að þinglýstur eigandi hennar er staddur í Kaupmannahöfn. Líka hefur verið reynt að fá keyptar jarðirnar Efri-Skútu (sem nú heitir Nyrðri-Skúta og Syðri-Skúta) ug Neðri-Skútu, en eigendurnir hafa ekki viljað gera tilboð um söluna. Ef bæjarstj. gerði nýja tilraun um kaupin og hún tækist, þá féllu l. auðvitað niður af sjálfu sér, en kæmu til framkvæmda að öðrum kosti.

Þegar níu menn af öllum flokkum í bæjarstj. eru sammála um að leita þessarar eignarnámsheimildar, þá má ganga að því sem vísu, að búið sé að athuga málið svo gaumgæfilega, að ekki geti leikið á tveim tungum um nauðsyn heimildarinnar. Væri miklu fremur ástæða til að fara varlega, ef bæjarstj. væri ekki sammála.

Ég tel, að l. þau, sem hv. þm. Mýr. gat um, eigi ekki að öllu leyti við þær aðstæður, sem á Siglufirði eru. Þau eru fremur miðuð við þarfir smærri hreppsfélaga. Vegna einangrunar Siglufjarðar er nauðsynlegt, að bærinn eignist það land allt, sem hér ræðir um, en ekki aðeins hluta af því. Ef frv. þetta nær fram að ganga, eignast bærinn allt landið við fjarðarbotninn að undanteknum þrem smálóðum, sem hann gæti þá keypt síðar.