08.03.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

100 ára minning tilskipunar um endurreisn Alþingis

forseti (HG):

Fyrir réttum 100 árum undirritaði Kristján konungur 8. „tilskipun um stiptun sérlegrar ráðgefandi samkomu fyrir Ísland, er á .að nefnast Alþing.“

Fyrsta grein tilskipunarinnar er á þessa leið: „Í staðinn fyrir það, að þau Voru landi Íslandi viðvíkjandi málefni, er samkvæmt tilskipuninni af 28. maí 1831 heyra til umdæmastandanna umsýslunnar, hingað til hafa verið meðhöndluð af umdæmastöndunum fyrir Sjálands og fleiri stipti, skal nefnt land eftirleiðis hafa sína eigin ráðgefandi samkomu, er á að nefnast Alþing. Það starf, er nefnd stönd hafa á hendi í tilliti til þeirra Voru landi Íslandi einungis viðvíkjandi laga og ráðstafana, á þannig að felast þessari nýju samkomu á hendur; og frá þeim tíma, er hún getur byrjað störf sín, á enginn lengur að hafa sæti í nefndri standasamkomu af Íslands hálfu.“

Í 2. gr. segir: „Hið árlega alþing á að samsetjast af 20 mönnum, er fasteign halda í landinu og kjósast þar til á þann í þessari tilskipun fyrirskrifaða máta“ — auk 6 embættismanna, er konungur tilnefnir.

Í 3. gr. eru ákvæði um skilyrði fyrir kosningarrétti til Alþingis, sem, eins og kunnugt er, þá var mjög takmarkaður og yfirleitt bundinn við ákveðna eign.

Að lokum segir í niðurlagi tilskipunarinnar að þeirra tíma venju:

„Héreptir eiga allir hlutaðeigendur sér allra undirdánugast að hegða. — Gefið í Vorum konunglega aðsetursstað Kaupmannahöfn þann 8. Martsi 1843.“

Hið síðasta Alþingi við Öxará var haldið árið 1798. En eftir það hafði Alþingi tvisvar komið saman til funda í Reykjavík.

Nú var ákveðið með tilskipun konungs, að aftur skyldi kveðja fulltrúa til setu á Alþingi. Fulltrúar þessir skyldu vera kosnir af landsmönnum, vera þjóðfulltrúar, en ekki nefndir til þingreiðar af sýslumönnum ásamt sjálfum þeim eða af lögmönnum til starfa í lögréttu. Ekki heldur sjálfvaldir eins og goðarnir til forna.

Verkefni Alþingis skyldi og annað en verið hafði undanfarið. Nú skyldi það fjalla um lagasetningu og vera konungi til ráðgjafar, sérstaklega um löggjafaratriði. Og eftir 1874 setti það lögin með konungi. Svipaði því um það meira til hins forna Alþingis lýðríkistímans en til Alþingis 18. aldar, sem svo að segja eingöngu fór með dómsvaldið.

Mér þykir hlýða að drepa með örfáum orðum á tildrög þess, að nú var ákveðið, að Alþingi skyldi hefja störf á ný og með þessum hætti.

Stjórnarbyltingin mikla í Frakklandi í lok 18. aldar vakti sterkar óskir og vonir í huga almennings í öllum löndum álfunnar, — óskir um betri kjör og vonir um betri og réttlátari stjórnarhætti. Krafan um frelsi, jafnrétti og bræðralag var upp hafin. Hún varð ekki kveðin niður aftur.

Jafnvel hið heilaga bandalag sigurvegaranna eftir Napóleonsstyrjaldirnar gat ekki þaggað niður kröfuna um, að þjóðirnar fengju sjálfar að velja fulltrúa til löggjafarþings. Og eftir júlíbyltinguna 1830 varð ekki lengur á móti staðið.

Árið 1831 ákvað Friðrik konungur 6. að setja á stofn 3 ráðgjafarþing fyrir Danmörku til þess, eins og það er orðað, að „gera konunginum kleift að afla sér áreiðanlegrar vitneskju um allt, er verða megi þjóðinni til nytja, treysta þau bönd, er binda saman þjóð og konungsætt, og lífga anda almennings.“ Skyldi konungur tilnefna 3 menn fyrir Ísland og Færeyjar til að eiga setu á stéttarþinginu í Hróarskeldu.

Þessi skyldi þá verða hlutdeild Íslendinga í réttarbótum þeim, er breytingin færði Dönum. Þótti Íslendingum að vonum sinn hlutur smár og létu sér fátt um finnast. Þegar árið eftir ritar Baldvin Einarsson rækilega um málið og ber fram skýr rök fyrir því, að Íslendingar eigi að fá sitt sérstaka ráðgjafarþing. Tóku Íslendingar bæði heima og í Danmörku undir þetta með bænarskrá til konungs og á annan hátt.

Um áramótin 1839–40 andaðist Friðrik konungur 6. Tók Kristján konungur 8. við ríki eftir hann. Væntu Íslendingar hins bezta af hinum nýja konungi. Færðu þeir honum heillaósk og „þuldu honum um leið stuttlega óskir sínar og vonir“ um, „að reyndir og skynsamir Íslendingar áttu í landinu sjálfu að taka hlutdeild í að ráðgast um málefni þjóðarinnar og í stjórn þeirra“. Tók konungur þessu hið bezta og lagði fyrir embættismannanefndina, er halda skyldi fund árið eftir (1841), að ráðgast um, hvort ekki muni vel til fallið að setja ráðgjafaþing á Íslandi, skipað hæfilega mörgum mönnum, þeirra er landsmenn hafa sjálfir til kjörið, — og hvort eigi sé rétt að nefna samkomuna Alþing. Tveimur árum síðar gaf svo konungur tilskipunina út, eins og áður er sagt.

Ég hef með þessum fáu orðum viljað reyna að rekja ofur stuttlega aðdraganda þess, að ákveðið var, að Alþingi skyldi hefja störf á ný. Þó er enn eigi minnzt þess mannsins, sem sízt hæfir að láta ógetið, er um mál þetta er rætt, Jóns Sigurðssonar.

Enginn hefur jafnskýrt og skörulega og hann sýnt fram á nauðsyn þess, að þjóðkjörið Alþingi Íslendinga væri starfandi á Íslandi.

Í greinum sínum ber Jón Sigurðsson fram átta röksemdir fyrir nauðsyn fulltrúaþings fyrir Ísland sér í lagi. Hin fyrsta er þessi:

„Veraldarsagan ber þess ljóst vitni, að hverri þjóð hefur þá vegnað bezt, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu.“

Þá sýnir hann fram á, hversu fjarlægð Íslands frá Dönum veldur deyfð og seinlæti í öllum stjórnarathöfnum og sinnuleysi með þjóðinni.

„Land og þjóð er ólíkt og ókunnugt Dönum, og sum málefni (verzlun) mótstæðileg þeirra gagni“, segir hann enn fremur. Loks sýnir hann fram á, að tilganginum með stofnun fulltrúaþings: að veita konungi vitneskju um allt það, sem verða má þjóðinni til nytja og að lífga þjóðarandann, verði ekki náð, nema þingið sé kosið af Íslendingum og sitji á Íslandi.

En Jón Sigurðsson lætur sér ekki nægja að sýna fram á nauðsyn þess, að Alþingi hefji störf á ný. Hann leggur höfuðáherzluna á það í greinum sínum 1841 og '42 að sýna landsmönnum fram á, hver verkefni bíði Alþingis og hvers þjóðin verði að gæta, til þess að störf þess geti orðið henni til nytsemda.

Um þetta segir Jón Sigurðsson svo:

„Sá er tilgangur allrar stjórnar að halda saman öllum þeim kröftum, sem hún er yfir sett, og koma þeim til að starfa til eins augnamiðs, en það er velgengni allra þegnanna og svo mikil framför, bæði á andlegan og líkamlegan hátt, sem þeim er unnt að öðlast. En eigi þessu að verða framgengt, þá er auðsætt, að allir kraftarnir verða að vera lausir að nokkru og bundnir að nokkru. Enginn getur sá gert fullt gagn, sem ekki hefur frelsi til þess, en hætt er einnig við, að sá, sem hefur allt frelsi, geri ekki frelsi annars hátt undir höfði, en þó má ekkert félag standast, ef ekki er slakað til á ýmsa lundu sanngjarnlega“.

Og hann brýnir það fyrir landsmönnum að muna það æ og ávallt, að „Þá aðeins má fulltrúaþingið verða að gagni, þegar menn í fyrstu eru sannfærðir um, að það megi gera gagn“.

„Til eru þeir menn,“ segir Jón Sigurðsson enn fremur, „sem telja, að Alþing komi sér ekki við“, og telur þá fyrst þann flokkinn, er segir: „Til hvers er að skipta sér af Alþingi? Það verður ekki til annars en alþýðunni til byrði eins og annað, sem höfðingjarnir finna upp á“.

Þessum svarar hann svo:

„En nú er Alþingi engan veginn sett höfðingjunum í vil, heldur fyrst og fremst alþýðu, til að gefa henni tækifæri til að láta þá menn, sem hún helzt vill kjósa, tala máli sínu og bera fram þarfir sínar. Höfðingjar og embættismenn þurfa ekki alþingi í þeim skilningi, því að þeir standa ofar í röð stéttanna og geta borið fram mál sin og vandkvæði sjálfir, en alþýðan þarf þess með“.

Verkefni Alþingis telur Jón Sigurðsson fyrst og fremst þessi:

„Að vinna að auknu frelsi og sjálfstæði landsins.

Að vinna að auknum framförum á öllum sviðum atvinnu, verzlunar og menningar.

Að lífga þjóðarandann, vekja trú þjóðarinnar á sjálfa sig, mátt sinn og rétt“.

Hversu hefur nú Alþingi tekizt að rækja það hlutverk, sem því var ætlað? Hefur oss munað „aftur á bak, ellegar nokkuð á leið“ þessi síðustu 100 ár?

Hvað er um hið fyrsta atriði: sjálfstæði lands og þjóðar?

Árið 1874 fékk Alþingi löggjafarvald ásamt með konungi og landið sérstaka stjórnarskrá. flrið 1904 er aðsetur ríkisstj. flutt til landsins, og upp frá því eru. Íslendingar einir ráðherrar. Árið 1918 viðurkenna Danir sjálfstæði Íslands og sjálfsforræði. Árið 1940 taka Íslendingar í sínar hendur þau mál, sem Danir til þessa höfðu farið með í umboði þeirra. Næsta ár, 1941, er æðsta vald í málefnum landsins fengið í hendur íslenzkum manni, kjörnum af Alþingi, og viðurkenning tveggja stórvelda fengin á fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar.

Á þessu tímabili hefur réttur landsmanna til kosninga og kjörgengis verið gerður almennar og jafn, bundinn við 21 árs aldur, án tillits til efnahags, kynferðis eða stéttar.

Hvað er um framfarir á sviðum atvinnu, verzlunar og menningar?

Þjóðin hefur vaxið ört. Fólksfjöldinn hefur meira en tvöfaldazt. Verzlun öll er í höndum landsmanna sjálfra. Efnahagur þjóðarinnar og lífskjör hafa batnað stórkostlega og öll ytri skilyrði.

Vegir, brýr, skip og vélar létta nú strit fólksins, ræktun landsins stórum aukin og hagnýting vatnsorku og jarðhita hafin. Fræðslu- og menningarstarfsemi margföld á við það, sem áður var.

Af þessu hefur það aftur leitt, að trú þjóðarinnar á mátt sinn og rétt hefur aukizt.

Það væri ofmæli og óvit að halda því fram, að þær miklu breytingar og framfarir, sem orðið hafa á flestum sviðum síðustu 100 ár og ég hef minnzt á, væru verk Alþingis eins. Þjóðin hefur hér öll verið að verki. En enginn neitar því, að Alþingi eigi sinn drjúga þátt í þeirri stórfelldu þróun, sem hér hefur orðið á þessari einu öld.

Ég hygg það sé eigi ofmælt, að fæstir þeirra, sem fulltíða voru árið 1843, hafi gert sér vonir um meiri árangur af starfi þings og þjóðar á þessum sviðum en orðinn er. Orð Jóns Sigurðssonar, þau, að hverri þjóð vegni þá bezt, þegar hún sjálf hugsar um og fer með stjórn málefna sinna, hefur reynslan sannað svo, að ekki verður móti mælt.

Án Alþingis hefði það trauðla fengizt, sem á hefur unnizt.

Saga Alþingis er saga þjóðarinnar. Svo he fur það verið í meira en 100 ár.

Háttvirtir alþingismenn!

Ýmsir mæla nú svo, að ætla mætti af orðum þeirra, að saga Alþingis sé brátt á enda og dagar þingræðis taldir á Íslandi. Jafnvel í útvarpi hefur verið rætt um gjaldþrot hins íslenzka lýðræðis.

Engin nýjung er það, þótt Alþingi sæti misjöfnum og ómildum dómum. Svo hefur jafnan verið, allt frá því er Alþingi fyrst hóf störf, bæði að fornu og nýju.

Jónas kvað um „hrafnaþing kolsvart í holti“ fyrir eitt hundrað árum, er Rvík var valin þingstaður, en ekki Þingvellir við Öxará. Margir hafa síðan varpað fram stöku, sem ekki er ætlað að auka hróður Alþingis. Og enn fleiri eru hinir, sem deilt hafa á Alþingi og dæmt það hart í óbundnu máli, í ræðu og riti.

Engin ástæða er því til þess að verða uppnæmur nú, þótt ýmsir gerist harðorðir um þingið. Hins vegar væri það mjög rangt og óviturlegt

að gera of lítið úr þeirri gagnrýni, sem Alþingi sætir nú, jafnvel umfram venju. Alþingi og hverjum einum þingmanna er skylt að meta og vega allar rökstuddar aðfinnslur í því skyni að færa eftir getu til letri vegar, þar sem umbóta er þörf.

Mér virðist ljóst, að gagnrýni á Alþingi og harðyrði um það eru að höfuðþáttum spunnin af tvennum toga.

Annars vegar eru þeir, sem í raun og veru óska, að vegur og sómi Alþingis sé sem mestur, og vilja mega vænta þaðan skjótra og öruggra úrræða í hverju máli, þjóðinni til heilla. Gagnrýni þeirra stafar af því, að þingið hefur brugðizt vonum þeirra. Það hefur orðið seinlátara og reikulla en vera ætti eða ekki valið hin réttu úrræði að þeirra dómi. Þeir vilja fá betra þing.

Auðvitað er allþingi áfátt um margt. Engum er það ljósara en okkur alþingismönnum. Starfsháttum Alþingis hefur verið tiltölulega lítið breytt í heila öld. En störfin hafa margfaldazt, sífellt orðið margbrotnari og fjölþættari, hraðinn meiri og vandamálin því krafizt skjótari úrlausnar. Og auðvitað hefur Alþingi ósjaldan gert það, sem síður skyldi. Mistök hafa þar orðið, og svo getur enn farið.

„Varla er sú list, að menn hafi jafnlengi þreytt með óvissum árangri og landsstjórnarlistina“, segir Jón Sigurðsson. Og jafnan sýnist nokkuð sitt hverjum um það, hvað rétt sé og heppilegast. Og því má eigi gleyma, að viðhorf og aðstaða einstaklinga og stétta til ýmissa höfuðmála er og hlýtur að vera mismunandi og ólík eftir þjóðfélagsaðstöðu. Þessi ágreiningur hlýtur að koma fram á Alþingi — ella væri það eigi rétt Alþingi — ella væri það eigi rétt eða fullkomin mynd þjóðarinnar. Þess vegna er gagnrýni þeirra, sem vilja betra þing, Alþingi holl og nauðsynleg. Hana er skylt að taka til greina, eftir því sem rök standa til að réttu mati. Alþingi verður að læra af reynslunni, líka af sínum eigin mistökum. Og til þess hefur þjóðin málfrelsi og ritfrelsi, að hver og einn geti bent á það, sem umbæta þarf.

Hins vegar eru þeir, sem hallmæla Alþingi og spá því illspám af þeirri ástæðu, að þeir vilja þingræði og lýðræði feigt.

„Falin er í illspá hverri

ósk um hrakför sýnu verri“,

segir Stephan G. Stephansson.

Gagnrýni þessara manna er ekki flutt til þess að koma fram umbótum á starfsháttum eða stefnu þingsins, heldur fyrst og fremst eða eingöngu í því skyni að svipta Alþingi trausti og tiltrú fólksins. Þeim er ljós sá sannleikur, að ef Alþingi nýtur ekki trausts þjóðarinnar, er það veikt og lítils megnugt. Grundvöllur lýðræðisins er trúin á manninn, hvern einstakan, mátt hans og vilja til að stjórna málefnum sínum í félagi við aðra menn. Og undirstaða þingsins og annarra þjóðfélagsstofnana lýðræðisríkja er traust borgaranna á sínum eigin stofnunum.

Þeir, sem vinna að því að rjúfa þessi nauðsynlegu bönd gagnkvæms trausts og trúnaðar, vinna óhappaverk. Sé slíkt gert vitandi vits af ráðnum huga, er þung sök þeirra, sem þann verknað fremja.

Háttvirtir alþingismenn!

Góðir Íslendingar!

Aldrei hefur þess verið meiri þörf en nú, að Alþingi reyndist þess umkomið að rækja hlutverk sitt. Hvarvetna umhverfis oss geisar ófriðurinn með vaxandi ógnum, grimmd og eyðileggingu. Enn erum vér utan þessa voðalega hildarleiks að mestu.

En fjárhagslíf og atvinnuvegir þjóðarinnar hafa raskazt stórkostlega, og ekki er séð, hvort nú lánast að lækka dýrtíðina og afstýra vaxandi verðbólgu, sem mundi enn breikka bilið milli auðs og örbirgðar. Og loks er þess að minnast, að fyrir liggur að ákveða formlega til framtíðar meðferð æðsta valds í landinu og tryggja réttarstöðu Íslands gagnvart umheiminum að fullu.

Verkefnin eru mörg og stór. Vandamálin þýðingarmikil, ekki aðeins í nútíð, heldur og fyrir framtíðina, niðja vora.

Ég á enga betri ósk Alþingi og þjóð til handa á þessum merku tímamótum en þá, að árangurinn af starfi þingsins næstu 100 ár verði hlutfallslega jafnávaxtaríkur og störf þingsins síðustu. 100 árin hafa reynzt þjóðinni.

Sumir virðast ætla, að ófriðurinn mikli sé eins konar eldskírn, þrekraun; er herði þjóðirnar, geri mennina meiri og betri þjóðfélagsborgara.

Vér óskum þess einlæglega, að vonir beztu manna um tímabil friðar og farsældar að stríðinu loknu megi rætast. En ég trúi því ekki, að það þurfi stríð til að betra mennina.

Ég vil að lokum taka undir þá ósk okkar unga skálds, að oss Íslendingum megi lánast að láta það á sannast, að vér þurfum ei

„stríð til að verða að mönnum,

vitrari, betri og þjóðhollari mönnum.“