11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Ég hef skrifað undir þetta nál. og er því málinu í höfuðatriðum samþykkur . Það er að vísu boðað í nál., að ég muni koma með brtt., og fylgi mitt við frv. verði undir því komið hvernig þeim brtt verði tekið. En þessar brtt. munu fremur verða viðauki við frv. en breyt. á því.

Ég hef nú athugað lítils háttar, hvernig ég ætti að koma þessum brtt. fyrir, og hef nú komið mér niður á, hvernig ég vil hafa þær. Ég hef þó ekki getað borið þær fram enn, en ég get sagt það strax, að þær eru viðkomandi sumarleyfum sveitafólksins, sem ég held, að sé sú stétt, sem verður verst sett, ef frv. verður samþ. óbreytt.

Ég ætla ekki að ræða frv. sjálft, en ég tek undir það með hv. flm., að ég tel ekki rétt að samþ. brtt. á þskj. 162. Það tíðkast nú allmikið, að kyrrsetumenn vinni að útivinnu í sumarleyfi sínu. Margt skrifstofufólk telur, að það hafi bezt not af sumarleyfi sínu með því að vinna líkamlega vinnu í sveitum í sumarleyfinu. Þessi tilhögun er áreiðanlega það ákjósanlegasta fyrirkomulag á sumarleyfinu, em heilbrigt fólk getur fengið. Sumarleyfið sem hvíld nær áreiðanlega ekki bezt tilgangi sínum með því móti, að sá, sem þess nýtur, hafi ekkert fyrir stafni. Maðurinn er þannig gerður. að hann hvílist ekki bezt á athafnaleysi. Þessi brtt. miðar því að mínu áliti mjög til hins verra. Sumir hafa verið að byggja sér hús hér í nágrenni Rvíkur, í þeim tilgangi að eyða þar sumarleyfum sínum, en þeir hafa þar ekkert við að vera. En aðalvandinn fyrir fólk er sá að hafa nægilega mikið af verustöðum, þar sem það hefur eitthvað að fást við í sumarleyfinu. Ég er ákaflega hræddur um, að ekki hafi verið séð nægilega fyrir þessu jafnhliða því, sem fólki er séð fyrir sumarleyfum, og er því hætt við, að leyfin nái ekki fyllilega tilgangi sínum. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar.

Það var upplýst af hv. frsm., að póst- og símamálastj. hafi óskað að kynna sér nokkur atriði þessa frv. og samkv. óskum hennar muni koma fram einhverjar smávægilegar brtt. Ég hef ekki haft ástæður til þess að kynna mér þessar breyt. nákvæmlega. En ég er nú tilbúinn með mínar viðaukatill., og vildi ég því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að fresta afgreiðslu þessa máls, til þess að n. gæti komið saman á fund til þess að athuga allar þessar till. Ég hygg, að hægt verði að láta frv. ganga í gegn breytingalítið, eftir að búið er að ganga frá þeim breyt., sem nú hafa verið boðaðar.