11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Ég verð nú að sætta mig við það, ef frv. fæst ekki frestað. Flm. tók því ekki vel, og verður það þá að vera undir ákvörðun hæstv. forseta komið, hvort það verður gert. En ég vildi mælast til þess, ef frv. verður afgr. nú, að þá verði látnir líða a.m.k. 2 dagar á milli þessarar umr. og þeirrar þriðju. Þá er rétt að taka það fram í sambandi við óskir um frestun, að það er alveg rétt, að það ætti að vera búið að koma fram með þessar brtt. En ég vil benda á það, að það er erfitt að koma þessum brtt. fyrir svo vel fari, nema á nokkuð löngum tíma. En viðvíkjandi 16. gr., þá er það rétt, að þetta atriði var borið fram í n., og ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á þessa breyt. Það mun sýna sig, og það er ég víss um, að hv. þm. Barð. mun fallast á, að þegar starfsfólk tekur frí, þá situr það ekki auðum höndum, heldur fer í fjallgöngur, skíðaferðir eða langferðir með bifreiðum o.s.frv. Það er því ljóst, að það er alveg fráleitt að banna mönnum að vinna í öðrum starfsgreinum, eins og það væri fráleitt að banna fólki að reyna nokkuð á sig, þegar það tekur orlof sitt. Ég vil þá benda hv. þm. á það, að í einni stuttri lagagr., eins og 16. gr., er erfitt að skilgreina, hvað sé sama starfsgrein. Til þess að skilgreina þetta nánar, hvað sé sama starfsgrein, verður að setja reglugerð. En það sjá hins vegar allir, að um algert iðjuleysi getur ekki verið að ræða hjá heilbrigðu fólki. Ég geri ráð fyrir, að þegar hv. þm. athugar það, að reglugerð verður sett um þetta, þá geti hann fallizt á að falla frá sinni brtt. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta mál á þessu stigi, en vil endurtaka það, að ég óska eftir því, að 3. umr. fari ekki fram fyrr en eftir 2 daga, verði þessari umr. ekki frestað.