18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

12. mál, orlof

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Allshn. hefur á ný tekið frv. til athugunar og einnig víss ákvæði. Enn fremur hefur n. rætt nokkuð og athugað tilmæli póst- og símamálastjóra, er ég minntist á við 2. umr. þessa máls, svo og brtt. hv. þm. Barð. við 16. gr. frv.

Af tilmælum þeim, er n. hafa borizt frá póst- og símamálastjóra, hefur hún séð sér fært að taka tvennt til greina. Í fyrsta lagi við 3. málsgr. 8. gr. frv., að í stað „póststöðvum“ komi: póstafgreiðslustöðvum. — Póst- og símamálastjóri benti á, að um 400 póststöðvar væru á landinu, en um 100 póstafgreiðslustöðvar, og hefðu þær einar sölu frímerkja og sjálfstætt reikningshald. Ef ætti að fara að láta allar póststöðvar fara að hafa sölu á slíkum orlofsmerkjum, þá yrði það of kostnaðarsamt, en aftur langeðlilegast að láta aðeins póstafgreiðslustöðvarnar annast þetta, þar sem þar væru skilyrðin til þess fyrir hendi.

Önnur breyt., sem n. gerði samkv. till. póstmálastj., er við 4. mgr. 8. gr., að orðinu „ákvæðisverð“ verði breytt í „nafnverð“, þar sem á máli póststj. er nafnverð það verð, sem prentað er á frímerkin, en aftur ákvæðisverð hærra en nafnverð frímerkjanna. Og að sjálfsögðu var það ekki meiningin, að póststj. fengi hærra verð fyrir merkin en á þeim verður tilgreint.

Fleiri af tilmælum póststj. sá n. sér ekki fært að taka til greina, en ég vil þó og tel rétt, að ég skýri frá brtt. þeirri, sem póst- og símamálastj. fór fram á, að gerð yrði við 11. gr.

Í gr. þeirri er gert ráð fyrir, ef viðkomandi orlofsþegi er sjúkur, þegar atvinnuveitandi ætlar honum orlof, en hann aftur á móti getur sýnt vottorð frá lækni um, að hann sé sjúkur, þá sé honum heimilt að krefjast orlofs á öðrum tíma en þeim, sem veikindi hans standa yfir. Póststj. taldi rétt, að starfsmaður ætti hvenær sem væri að taka við orlofi sínu, er honum væri það í té látið, hvernig sem á stæði. — Það má að nokkru leyti til sanns vegar færa hjá póststj., að þetta yrði kannske eitthvað misnotað af hálfu starfsfólks, en n. leit svo á, að það væri engu minni hætta á, að atvinnuveitendur mundu á hliðstæðan hátt misnota það ákvæði, ef farið yrði að vilja póststj. í þessu efni.

Þá leggur n. til, að orðin í 2. mgr. 13. gr. „til loka yfirstandandi orlofsárs“ falli burtu, en þó að n. sé sammála um að fella þetta ákvæði niður, þá er hún eins sammála um hitt, að þessi takmörkun megi ekki með öllu hverfa, þannig að hægt sé að færa orlof saman eftir vild. Því leggur hún til, að þessi breyt. verði gerð á frv. en að ráðh. hafi þetta á valdi sínu eftir sem áður.

N. hefur og athugað sérstaklega breyt. þá, er hv. þm. Barð. kom fram með við 16. gr. frv. Eins og gr. sýnir, vill hún fyrirbyggja það, að manni sé óheimilt að vinna fyrir kaupi í starfsgrein Sinni, meðan hann er í orlofi, en brtt: hv. þm. Barð. er í því fólgin að fella orðin „í starfsgrein sinni“ burt.

Í umr. þeim, sem fóru á milli hv. þm. Str. og hv. þm. Barð. um þetta atriði, kom í ljós, að hv. þm. Barð. gat fyrir sitt leyti gengið inn á, að gr. yrði breytt þannig, að þrengt yrði að nokkru hugtak hennar og ráðh. falið að setja um það nánari ákvæði í reglugerð. N. hefur því í samræmi við þetta lagt til, að brtt. við 16. gr. verði svo sem hún er orðuð á þskj. 197, og hef ég sérstaklega borið þessa brtt. n. undir hv. þm. Barð., og hefur hann fyrir sitt leyti tjáð sig fúsan á að fallast á brtt. eins og hún er þar orðuð.

Enn er svo ein viðbótartill. frá hv. þm. Str. (HermJ) þess efnis, að á eftir 18. gr. komi ný gr. um, að ríkissjóður greiði árlega fjárhæð til að styrkja kynnisferðir sveitafólks, og Búnaðarfél. Íslands setji reglur og úthluti fénu með tilliti til tölu býla á sambandssvæðunum.

N. hefur ekki sameiginlega tekið afstöðu til þessarar till., en ég fyrir mitt leyti get lýst yfir því, að ég fellst á og get fylgt hugmynd þeirri, er felst í till. þessari, en ég tel réttara, að hún eigi einhversstaðar annars staðar betur heima en í þessu frv. — Eðlilegra þætti mér, að um þetta yrðu sett jafnvel ný l. eða þá tekið upp í fjárl. Í fjárl. er nú veitt upphæð í þessu skyni, 2000 kr., en í till. er gert ráð fyrir, að upphæðin verði miðuð við 10% af útborguðum jarðræktarstyrk, um 50 þús. kr. Ég fyrir mitt leyti mun, eins og ég sagði, styðja þessa hugmynd, annaðhvort með því að auka framlag til þessa í fjárl. eða þá með því, að sett yrðu ný I. um þetta atriði. En ég vil ekki, að það sé verið að knýta þessu aftan í frv. af því að ég tel það ekki eiga heima þar. Ég vænti þess, að hv. þm. Str. taki þetta til athugunar.