18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Þessa brtt., er ég flyt á þskj. 193, á að mínu áliti að fella inn í þetta frv. Ég vil þá í því sambandi geta þess, að allir meðnm. mínir í allshn. tóku því vel, er ég tjáði þeim, að ég mundi gera brtt. við frv. þess efnis að tryggja húsmæðrum í sveit sin sumarfrí. En af því að ég var ekki búinn að undirbúa málið þannig, að hægt væri að ræða það í n., gat n. ekki í heild tekið afstöðu til og látið uppi álit sitt á brtt.

Ekki er hægt að neita því algerlega, sem hv. flm. frv. sagði, að brtt. þessi félli ekki í ramma frv., og það hef ég reyndar áður tekið fram. Þó er sá rammi, sem frv. er sniðið í, brotinn með ákvæði 1. gr. Þar eru hlutarmenn á fiskiskipum, sem eru svo að segja sínir eigin húsbændur, settir undir ákvæði þessa frv., ef þeir óska þess. Að öðru leyti eru þeir einir undir ákvæði þessa frv. settir, er þiggja laun hjá öðrum við vinnu sína. Nú er því svo háttað, að flestir, er fá laun hjá öðrum, hafa þegar fengið sín orlof, annaðhvort með samningum eða l. Þeir einir hafa verið eftir skildir, er vinna lausavinnu. Frv. er því um það, að þeir, sem lausavinnu stunda og ekki hafa tryggt sér þann rétt að fá orlof, fá nú þann rétt og 4% hækkun á kaup sitt. — Þegar slík réttindi eru veitt borgurunum, launamönnunum, án undantekningar, sem ég líka álít rétt og sanngjarnt, þá skiptir það miklu máli, að engar stéttir þjóðfélagsins séu eftir skildar. Ef ganga á frá löggjöf í þessu efni, eins og ætlazt er til með frv. því, er hér liggur fyrir, þá finnst mér ekki með neinni sanngirni hægt að ganga fram hjá sveitafólkinu í landinu, og því legg ég til, að því sé tryggður sams konar eða svipaður réttur og öðrum. — Þó að á fjárl. sé veitt einhver upphæð í þessu skyni, þá er þeim ákvæðum ekki saman að jafna við að hafa um það sérstök l. Ef það er rétt að tryggja rétt launamanna í landinu til orlofs, sem ég og aðrir hafa lýst sig fullkomlega samþykka, þá er það að sínu leyti jafnmikil ástæða og jafnnauðsynlegt að tryggja sveitafólkinu einnig með l. þann rétt, og þá auðvitað langeðlilegast að binda og lögfesta þetta hvort tveggja með sömu l. sökum náins skyldleika.

Ég vil og leyfa mér að benda á, að eftir þessu frv., sem fyrir liggur, hefur sveitafólkið enn meiri rétt til þess að verða aðnjótandi þeirra réttinda, sem í brtt. minni felast. Því að þegar allir launamenn eiga að fá rétt til sumarleyfa og ekki er um leið séð fyrir nægum sumardvalarstöðum, þá sér það hver maður, að þessi sumarfrí launafólksins í þorpum og kaupstöðum ganga bersýnilega að mestu leyti yfir sveitaheimilin.

Það vita allir, sem eitthvað þekkja til, að seinni partur laugardaga og sunnudagar eru oftast erfiðustu dagarnir á sveitaheimilum í alfaraleið sökum stöðugs gestagangs, og kemur sú vinna mest niður á húsmóðurinni, sem af þeirri ;restakomu leiðir. Er maður gerir sér þetta ljóst, þá er enn meiri ástæða til að taka þessa brtt. á þskj. 193 inn í frv., þar sem það er bersýnilegt, eins og ég sagði, að sumarleyfin ganga út yfir sveitaheimilin í landinu, eins og aðstæður til sumardvala eru nú. Þetta hefur gengið það langt nú þegar, að jafnvel tugir manna hafa orðið að hverfa burt um helgar frá sveitaheimilum, sökum þess að þar var þegar orðið yfirfullt af gestum.

Ég vona því, að hægt verði að fella brtt. mína inn í frv. Meðnm. mínir hafa tekið vel í þetta mál og telja, að slíkt ákvæði sem þetta gæti mjög vel átt heima í frv., og vona ég, að hv. flm. vilji fallast á að fella þessa till. inn í frv. — Ég vil benda á, að þessar kynnisferðir mundu vera farnar milli voranna og sláttar, og væri það vel við eigandi, að fólkið rengi þessa uppbót fyrir vinnu sína, sem gæti þá skoðazt sem eins konar verðlaun fyrir vorstörfin, sem yrði til þess að gefa sveitafólkinu almennt tækifæri til að lyfta sér upp, er nokkurt hlé verður á störfum þess, áður en heyannir byrja.

Ég sé ekki ástæðu til að mæla frekar með þessari till. á þessu stigi málsins, en ég vona, að hv. þd. taki henni vel.