18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það má náttúrlega raða um það fram og aftur, hvort 1. gr. sé í samræmi við reglurnar almennt, þar sem tekið er fram, að einungis þeir. sem hafa föst laun, fái vissa uppbót á þau fyrir sumarfríi. Hins vegar er litið svo á, að hlutarmenn séu raunverulega atvinnurekendur í venjulegri merkingu þess orðs og ættu því enga uppbót að fá. Síðar í l. gr. stendur, að hlutarmenn leggi fram helming kostnaðar við orlof, en útgerðarmenn hinn helminginn. Ég álít þetta brot á reglu frv. Það má líka segja, að reglan viðkomandi orlofsferðum sveitafólks á þskj. 193 sé annars eðlis, en ég álit hana í samræmi við meginreglu frv. Ég held, að það sé með fleiri frv. þannig, að ekki gangi ein meginregla gegnum allt frv., heldur margar reglur. Lífið sjálft er svo margvíslegt, að þar koma margar reglur til greina. Ég held því, að bezt sé að fylgja þeirri meginreglu að samþykkja engin lög, sein eru þannig, að þegnar þjóðfélagsins verði fyrir misrétti vegna þeirra. Ef þessi brtt. verður ekki samþ., og ég hef enga tryggingu fyrir því á þessu stigi málsins —, þá verður þessi regla brotin. Mér finnst það sjálfsagt, að sveitafólkið njóti sama réttar og aðrir þegnar þjóðfélagsins, en ef brtt. verður felld, er hlutur þess mjög fyrir borð borinn. En verst af öllu er það, ef þessi regla, að gæta jafnréttis allra þegna þjóðfélagsins, verður brotin af sjálfum löggjafanum.

Í sambandi við það, að hv. þm. Barð. sagði varðandi þetta frv., að hann væri fylgjandi því, vil ég taka það fram, að mér virðist, að hann ætti að fylgja brtt. og viðurkenna með því rétt sveitafólksins til þessarar uppbótar. Ég væri fús til samkomulags í þessu máli, ef hv. þm. Barð., sem hefur sagt, að brtt. mín væri annars eðlis en frv., kæmi fram með brtt., sem tryggði rétt sveitafólksins í þessu efni. Vil ég lýsa eftir því, að hann komi fram með brtt. í þá átt. Ég hygg, að það sé engu siður óskylt mál að taka upp lagaákvæði um sumarleyfi fyrir húsmæður í kaupstöðum. Þær vinna sumar úti og taka laun skv. frv. Það ætti að tryggja þeim sama rétt og bændum þeirra skv. lögum.

Þá ber að gæta þess, að brtt. mín er fullkomlega í samræmi við frv. Jarðræktarvinna landsins er fyrst og fremst unnin fyrir þjóðfélagið. Það er vitað mál, að jarðabætur borga sig var la án ríkisstyrks, og um leið og ríkið greiðir jarðræktarstyrkinn, viðurkennir það, að þeir, sem að jarðrækt vinna, séu að víssu leyti launþegar ríkísins. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að litið sé á þessi laun bænda svipað og annarra launþega og þeir fái greidda á þau uppbót samkv. brtt. minni í sambandi við orlof þeirra á milli voranna og sláttar. Að þessu leyti er brtt. mín skyldari frv. en fljótt á litið kann að virðast, svo skyld, að hún er hliðstæða við málið sjálft. Ríkið er þarna að greiða uppbætur á þessi laun. Ég vil mælast til þess, að hv. deild athugi brtt. með nokkurri gaumgæfni, sérstaklega þm. Barð., þar sem hann lýsir sig fylgjandi till. í þessa átt.

Og hvað sem öllum reglum líður, þá er það sú meginregla, sem mestu máli skiptir, að engum þegnum þjóðfélagsins sé sýnt misrétti. Sveitafólkinu mun veitast erfitt að þola misrétti í þessu efni ekki síður en öðru fólki. Og lög, þar sem réttur þess væri fyrir borð borinn, mundu eiga erfitt uppdráttar á Alþingi.