18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

12. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. vil ég leyfa mér að upplýsa það, að brtt. á þskj. 162 var tekin til baka til 3. umr., en það er bara einhver misgáningur hjá skrifstofunni, að hún er ekki á dagskránni nú Hvort hún kemur ekki til atkvgr. nú, skal ég ekki segja. En ég mun taka hana til baka, ef þetta (brtt. hv. þm. Str.) verður samþ., því að ég vil heldur fá eitthvað samþ. um þetta efni en ekki neitt.

Að atvinnurekendur yfirleitt gera sig ánægða með þá kvöð, sem lögð er á þá með ákvæðunum um orlof, held ég að sé af því, að þeir þykjast fullvissir um það af reynslunni, að þeir fái endurgreiddan í betri afköstum starfsfólks síns og verkafólks þann kostnað, sem af þessu leiðir og þeir verða að bera. Og það er einnig skoðun mín, að hér sé um menningaratriði að ræða, sem aðrar þjóðir eru komnar inn á og Íslendingar eiga ekki að spyrna fótum við. Fyrr á tíma unnu menn 16–18 klst. á sólarhring, en nú eru menn víssir um, að það borgar sig ekki. Og nú hafa menn lagt á sig kvaðir vegna orlofa eða sumarleyfa í flestum atvinnugreinum. Hitt er annað mál, að ég hef ekki trú á því, að þetta komi fram sem kauphækkun hjá þeim af verkalýðnum, sem vinna dag og dag, og gagnvart þeim á það ekki heldur að koma fram sem kauphækkun.

Hv. 1. þm. Eyf. spurði, hvers vegna mætti ekki leggja þetta á ríkissjóðinn. Það er gert, þegar ríkissjóðurinn er atvinnurekandinn í þessu sambandi. En það er dálitið óskylt mál því, sem í brtt. hv. þm. Str. felst, því að hún er raunverulega um að styrkja framleiðendur í þessu skyni.

Út af ummælum hv. þm. Str. vildi ég minnast á, hvort við gætum ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls hér, vegna þess að við viljum allir það sama, þannig að við berum fram á þessu þingi frv. um að styrkja sveitafólk í þessu skyni. Við erum sammála um, að það eigi að veita sveitafólkinu fé til sumarfría, og yrði það þá kannske fyrsta, en ekki síðasta frv., sem við hv. þm. Str. og ég yrðum sammála um að vera báðir flm. að. Það þarf í raun og veru að taka miklu skýrar fram um það, hvernig skuli haga þessu máli fyrir það fé, sem til þessa yrði lagt fram úr ríkissjóði, heldur en gert er í stuttri brtt. Það er tekið ákaflega skýrt fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sem verður, ef samþ. verður, stór lagabálkur, hvernig þessum orlofum skuli hagað. En hér í brtt. hv. þm. Str. er ekki annað tekið fram en að þessu fé eigi að vera varið til kynnisferða. Ætti því að taka þetta fyrir í lagafrvformi, sem við hv. þm. Str., hv. 1. m. Eyf. og væntanlega hv. flm. þessa frv. gætum verið sammála um. Að ég hef ekki komið fram með brtt. í þessu máli, er eingöngu af því, að ég beindi þeim orðum til hv. flm. frv. á sumarþinginu að reyna að fella þetta, þ.e. ákvæði um sumarleyfi fyrir sveitafólk, inn í frv., áður en það kæmi til næsta þings. Þetta hefur þó ekki verið gert. En á fyrsta stigi málsins lýsti hv. þm. Str. yfir því, að hann mundi koma með brtt. um málið. Og ef hann hefði þá óskað eftir, að við hefðum reynt að fella þetta saman, mundi ég fúslega hafa reynt það. En ég hélt, að hann hefði tekið að sér verk, sem ekki þyrfti svo að vinna af öðrum, en ég sé nú, að ekki hefur verið gert öðruvísi en svo, að hv. d. getur ekki fellt sig við þá afgreiðslu.

Hitt er mér gleðiefni, að hv. þm. Str. vill láta alla þjóðfélagsþegnana hafa sama rétt, því að það hefur ekki verið aðalstefna Framsfl. undanfarin ár. (HermJ: Hefur það verið stefna Sjálfstfl.?).