18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Herra forseti. – Það er aðeins stutt aths.

Það er vitanlega hugsunarskekkja hjá hv. þm. Barð., að enn sé ekki hætt að koma að brtt. um sumarleyfi sveitafólks í sambandi við þetta frv. og það þurfi að standa í vegi þess, að efni frv. sé þannig, að slík breyt. falli ekki inn í ramma þess, og þess vegna geti hvorki hann né aðrir verið með því að fella þessa breyt. inn í frv. Ég mundi að sjálfsögðu fylgja brtt., sem tryggðu þennan rétt sveitafólki til handa, frá hverjum sem þær till. kæmu, hvort sem þær væru í sambandi við þetta frv. eða fluttar sérstaklega eða þá í sambandi við sumarleyfi húsmæðra. En það er nú liðið talsvert á þetta þing, þó að maður viti ekki enn, hve langt það verður. Og reynsla þeirra, sem hafa setið hér á hæstv. Alþ., er sú, ef á að koma fram máli, þá sé a.m.k. ekkert óhyggilegra að gera það fyrr en síðar. Og þegar samþ. er mál um mjög almennan rétt þegnanna í þjóðfélaginu til sumarleyfis, en einn hópur manna eftir skilinn, eins og stefnt er að með þessu frv., þá álít ég það bæði hyggileg og eðlileg vinnubrögð, að réttur þessa vissa hóps manna til sumarleyfis sé tryggður um leið og gengið er frá þessu máli og einmitt í sambandi við það. Við hv. þm. Barð. höfum enga tryggingu fyrir því, þó að við ráðum miklu hér á hæstv. Alþ., að frv., sem við flyttum um þetta mál, gengi fram síðar á þessu þingi eða á næsta þingi. Og ég álít það alveg sérstaklega ranglátlega afgreiðslu, þegar við erum að tryggja kaupstaðafólki og lausafólki rétt til sumarleyfis, þegar vitað er, að sveitafólk, og þá sérstaklega húsmæður, eru verr settar í þessu efni heldur en þetta fólk, sem verið er með þessu frv. að tryggja sumarleyfi, að þá sé verið að skjóta því fram fyrir sig sem ástæðu til þess að samþ. ekki þessa brtt., að efni hennar falli ekki nákvæmlega inn í ramma frv. Það, sem við erum að tryggja hér, er réttur nokkurra þegna þjóðfélagsins til sumarleyfis. En ef brtt. mín eða eitthvað hliðstætt er ekki samþ., þá er skilinn eftir sá hópur þjóðfélagsþegnanna, og má þá ekki sízt nefna húsmæðurnar, sem mesta þörf hefur fyrir að geta fengið sumarleyfi, og þetta álít ég rangt. Og um leið og við samþykkjum þetta frv., þá verður sveitafólkið, húsmæðurnar sérstaklega, enn þá verr úti, vegna þess að því meiri leyfi sem kaupstaðafólkið hefur, því meir gengur það út yfir starfstíma sveitafólksins, meðan hótel eru ekki nægileg til þess að taka á móti þessu fólki. Það fer á sveitaheimilin, og vinnutími sveitafólksins, sérstaklega húsmæðranna lengist við það, því að það mun leita upp í sveit og helzt á sveitabæi í sumarleyfum sínum. Ég álít, að hv. þm. eigi að taka það til athugunar, að við eigum að samþ. þessa brtt. í sambandi við þetta mál. Það er ekkert höfuðatriði í þessu efni, hvort menn eru kallaðir atvinnurekendur eða vinnuþiggjendur. Það er smátt atriði samanborið við hina meginregluna, að láta alla vera jafna í þessu þjóðfélagi. Og það má ræða um það að tryggja þjóðfélagsþegnunum sama rétt, og hvort Framsfl. hafi brotið meira af sér í því efni heldur en aðrir flokkar. Stjórnmálin snúast öll um það, hvort þegnunum í þessu þjóðfélagi og öðrum sé tryggður svipaður réttur. Og það yrði helzt til langt umræðuefni, ef við ættum að fara inn á að ræða um það. Þess vegna held ég, að það sé rétt að gera það ekki frekar nú.