18.01.1943
Efri deild: 35. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Það hefur nú komið fram upp á síðkastið aðallega aths. við þessa brtt., ekki um það aðallega, að hún falli ekki inn í frv., sem ekki er heldur auðvelt að bera fram af ástæðum, sem greindar hafa verið, heldur eru þær ástæður nú fyrst og fremst fram bornar, að brtt. sé ekki nógu skýr. Þetta er stutt brtt. að vísu. Og það er borið fram, að í henni séu þess vegna ekki nógu ýtarleg ákvæði um það, hvernig þessum kynnisferðum eigi að vera háttað. Í þessu sambandi vil ég benda á, að þessar kynnisferðir sveitafólks eru komnar í nokkuð sérstakt og ákveðið form, bæði kynnisferðir húsmæðra, sem farnar hafa verið á nokkrum undanförnum árum, og kynnisferðir bænda. Og þetta fólk tekur sér skemmtiferðir á hendur til þess að lyfta sér upp og til þess að sjá í öðrum byggðarlögum búskaparlag og vinnuaðferðir og mannvirki, byggingar og annað, sem við kemur hlutaðeigandi fólki. Svo að jafnframt því, sem þessar ferðir eru kynnisferðir, þá eru þær ekki að litlu gagni fyrir utan skemmtunina, sem af þeim fæst. Það er vanalega skrifað um þessar ferðir eftir á, til þess að segja frá því, hvað fyrir augun hefur borið, til þess að að þeim verði sem mest gagn. Þess vegna eru þetta ekki aðeins skemmtiferðir, heldur líka kynnisferðir. Þess vegna álít ég þeim ekki betur fyrir komið með öðru móti en því, að Búnaðarfélag Íslands og bændurnir sjálfir, sem yrðu til þess að gera till. um þær við Búnaðarfélag Íslands, hefðu um það að segja, hvernig þessum ferðum yrði fyrir komið. Og þá yrðu þær ferðir til skemmtunar og nytsemdar. Þess vegna álít ég, að gr. í brtt. út af fyrir sig sé alveg nægilega skýr um það efni. En ég vil samt sem áður — og til þess að lýsa yfir því stóð ég aðallega upp — alls ekki beita mér gegn því, að um þetta sé sett sérstök löggjöf. Ég skal meira að segja fallast á brtt. hv. 2. þm. Árn. (EE) um þetta efni, að þetta sé ákveðið til bráðabirgða, og þannig sé þessi réttur tryggður sveitafólkinu, samhliða því, sem öðrum stéttum er tryggður þessi réttur. Ég geng alveg inn á, að þetta sé haft þannig, þangað til sérstök löggjöf er komin í gildi um kynnisferðir sveitafólks.

Ég skal í annan stað ganga inn á, að afgreiðslu frv. verði frestað, eins og komið hafa uppástungur um, þannig að löggjöf um kynnisferðir sveitafólks geti orðið afgr. samhliða þessu frv. á hæstv. Alþ.

Ég er hlynntur þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég viðurkenni að vísu, þegar við erum að gefa slík sumarleyfi, sem við erum að gera með þessum l., þá teflum við á fremsta hlunn með, að við getum gert þetta, þ.e. að atvinnulíf okkar þoli þetta. En ég hef ekki séð sérstaka ástæðu til að fara að ræða þetta atriði. En þar sem við nú ákveðum þetta, sem frv. er um, get ég alls ekki fallizt á, að við göngum fram hjá sérstakri stétt, sem eru fyrst og fremst sveitakonurnar, sem er miklu verr sett heldur en fólk það, sem við erum með þessu frv. að tryggja þennan rétt. Og mér er ekki hægt að fylgja þessu máli með öðru móti en því, að þessari stétt sé tryggður þessi réttur. Ég hef hins vegar beitt mér nokkuð fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga. En ég tók fram í upphafi, að þetta, sem ég gat um, að sveitafólkinu væri einnig tryggður þessi réttur, væri eitt af skilyrðunum, sem ég setti fyrir fylgi mínu við málið. Og því var vel tekið af hv. n. Og ef það að samþ. brtt. mína þykir falla svo illa inn í form frv., vegna þess að hér sé ekki verið að tryggja launþegum þennan rétt, heldur atvinnurekendum, og ef mönnum þykir ekki nægilega skýrt fram tekið í brtt. það, sem hún fjallar um, þá er ég fús til að fallast á, að þetta sé tekið upp sem ákvæði til bráðabirgða nú og síðar sett ákvæði um það með sérstakri löggjöf. Í öðru lagi er ég fús til þess að vera með því, að þessu máli, sem hér liggur fyrir, verði frestað, og annað frv., um kynnisferðir sveitafólks, verði flutt og það látið ganga fram jafnhliða þessu frv. hér í hv. d. Og ég vil mælast til þess, að ekki sé ver ið að tefla málinu, sem hér liggur fyrir, í tvísýnu með því að neita e.t.v. báðum þessum boðum.