20.01.1943
Efri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

12. mál, orlof

Jónas Jónsson:

Ég ætla fyrst að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. um málið, vegna þess að hv. 1. þm. Eyf. er ekki viðstaddur fyrir lasleika sakir, en hann hefur látið þetta mál mjög til sin taka.

Út af spurningu hv. 6. þm. Reykv. um það, hvort ekki hafi verið einn framsóknarmaður í þeirri þriggja manna n., sem hafði þetta mál til undirbúnings áður fyrr, get ég skýrt frá því, að sá maður var ekki skipaður af Framsfl. og starfaði á engan hátt í samráði við flokkinn. Starf hans í. n. var hans einkamál. En þegar þetta mál kemur hér fram og Framsfl. hefur aðstöðu til að hlutast til um það, þá ákveður hann að samþ. þessa till. hv. þm. Str. En að því er hv. 6. þm. Reykv. snertir, vil ég vona, að hann láti sér viti kommúnista að varnaði verða og bjargi sér af þeirri hálku, sem hann er kominn út á ásamt þeim.