05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

12. mál, orlof

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti: — Á Alþ. vorið 1941 var samþ. þál. um skipun mþn. til að undirbúa löggjöf um orlof vinnandi fólks. Þegar þáltill. þessi kom fram, var henni vísað til allshn. Sþ., og samdi hún upp úr henni þáltill. þá, sem samþ. var, og var hún á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að leita tillagna verkalýðs- og vinnuveitendasamtakanna svo og Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands um undirbúning löggjafar um orlof vinnandi fólks í landinu til sjávar og sveita frá störfum á víssum tímum árs. Leggi ríkisstj. málið síðan fyrir næsta Alþingi í því farmi, sem henni þykir henta.“

Samkvæmt þessari ályktun Alþ. var þann 17. okt. 19t1 skipuð 5 manna mþn. af félmrn. Einn var skipaður eftir tillögum Alþýðusambands Íslands, annar eftir till. Vinnuveitendafél. Íslands, þriðji eftir till. Búnaðarfélags Íslands, fjórði eftir till. Fiskifélags Íslands or sá fimmti, sem var form. n., var skipaður af félmrh. án tilnefningar. Þessi mþn. starfaði nokkurn tíma og sá félmrn. henni fyrir gögnum, sem veittu allar upplýsingar um sams konar löggjöf á Norðurlöndum. N. lauk síðan störfum og skilaði sameiginlegu áliti nema fulltrúi Vinnuveitendafélags Íslands, sem skilaði minni hluta áliti og lagði til, að lægri hundraðshluti af kaupi verkafólks yrði greiddur í orlofsfé en meiri hluti mþn. hafði lagt til. Um það leyti, sem mþn. lauk störfum, urðu breytingar á ríkisstjórninni þannig, að eftir það var enginn sérstakur félagsmálaráðherra. fyrra þinginu 1942 var svo borið fram frv. til l. um orlof, eins og meiri hluti mþn. hafði gengið frá því. Frv. dagaði þá uppi, en var nú aftur tekið upp í Ed. á þessu þingi. Frv. hefur nú verið athugað ýtarlega í Ed., og voru þar gerðar á því nokkrar breyt., og var það síðan afgr. frá d. nú fyrir skömmu með atkv, manna af öllum flokkum. Allshn. Nd. hefur nú athugað frv. og leggur öll til að það verði samþ. óbreytt, enda hefur það verið athugað áður rækilega, bæði af mþn. og n. í Ed.

Ég þarf ekki að rekja hér efni frv. Höfuðatriði þess eru, að vinnandi fólki til sjávar og sveita skuli greiddur í orlofsfé ákveðinn hundraðshluti af því kaupi, sem það hefur unnið fyrir næsta ár á undan. Við 1. umr. þessa máls gat ég þess, að það hefði tíðkazt hér á landi um langt skeið, að opinberir starfsmenn, skrifstofufólk, iðnaðarmenn og annað þjónustufólk hafi fengið orlof á ári hverju með fullu kaupi. Þetta fólk getur ekki nógsamlega lofað þessi hlunnindi og telur þau mikla hagsbót fyrir sig. Það má bæta því við, að atvinnurekendur, sem hafa fólk í þjónustu sinni, munu vera þeirrar skoðunar, að það sé til góðs, að fólkið fái upplyftingu frá vinnunni. Það er engum blöðum um það að fletta, að sé slík hvíld notuð skynsamlega, er hún fólkinu eðlileg og nauðsynleg breyting frá hversdagslífinu og þar að auki til menningarauka, ef vel er á haldið. Fólk, sem notið hefur slíkra orlofa, hefur átt þess frekari kost að skoða okkar fagra land og getur þannig aukið sjóndeildarhring sinn. víðsýni sína, og þekkingu á landi og þjóð. Það má því segja, að hugsjónin um orlof sé hvort tveggja í senn, réttlát frá sjónarmiði almennrar heilbrigði og almennrar menningar í landinu. Það er líka svo, að þetta er viðurkennt og var orðið viðurkennt í öllum menningarlöndum fyrir stríðið og það allvíðtækara heldur en hefur verið til þessa hér á landi. Eins og vikið var að við 1. umr., hafa þau ríki, sem lengst voru komin hér í álfu fyrir stríðið í félagslegum umbótum, komið á hjá sér slíkri löggjöf með góðum árangri. Ísland varð á eftir hinum Norðurlöndunum í þessum efnum, en hefur þó tekið risaskref á seinustu árum í félagsmálalöggjöfinni. Eina skrefið, sem óstigið er í þessum efnum, er löggjöf um orlof. Þess vegna væri næsta eðlilegt, að við nú stigjum þetta skref og létum það ekki lengur bíða. Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi hv. d. mæti með sama skilningi því frv., sem hér liggur fyrir, eins og hv. Ed. hefur gert. Ég þarf ekki að rekja efni frv. frekar, enda liggur það mjög ljóst fyrir og hefur vafalaust verið lesið af öllum hv. þm. Allshn. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir. Tveir hv. þm. hafa borið fram brtt. við frv. sem eru á þskj. 330, en þeim var útbýtt á þessum fundi. Höfuðatriði þessara brtt. virðist mér vera skipulagið um orlofsmerkin, sem frv. gerir ráð fyrir. Án þess þó að hafa verulega heyrt grg., flm. fyrir brtt., nema hvað ráða mátti af ræðu hv. þm. V.-Húnv., sem er annar flm. brtt., við 1. umr., vill allshn. leggja á móti því, að þessar brtt. verði samþ. Skipulagið um orlofsmerkin hefur verið reynt, frá því er löggjöfin á Norðurlöndum var sett, og hið sama má segja um þetta hér á landi, síðan samningar um orlof verkamanna komust á. Orlofsmerkin hafa gefizt vel í framkvæmdinni á Norðurlöndum, og engin ástæða er til að ætla, að öðruvísi fari hér. Þetta mál hefur verið rætt nokkuð við póstmálastjórnina, og telur hún, að engin vandkvæði ættu að verða á framkvæmd þessa máls frá hennar hálfu. Ég held, að frá hálfu atvinnurekenda eða orlofsþiggjenda ættu ekki heldur að vera nein vandkvæði á að nota þetta skipulag. Ég sé ekki, að það sé verra fyrir atvinnurekendur að hafa með höndum slík merki og slíkar orlofsbækur heldur en það er og hefur verið fyrir ýmsa menn að hafa með höndum stimpilmerki og þurfa að nota þau.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, en vildi aðeins láta þessi orð falla um brtt. Ég vil svo vænta þess, að hv. d. geti orðið sammála um að afgr. frv. óbreytt.