05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

12. mál, orlof

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég þarf fáu einu að svara af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði til stuðnings brtt. sinni, því að hv. 1. landsk. þm. hefur nú þegar svarað því að verulegu leyti. Ég vil aðeins að gefnu tilefni taka það fram, að þar sem hv. þm. V.-Húnv. hreyfði þessum andmælum gegn orlofsmerkjunum við 1. umr. og engar raddir komu fram í allshn. um að breyta þessu ákvæði frv., tel ég ástæðulaust að fresta málinu út af þessum brtt. Ég vil aðeins vona, að þær nái ekki fram að ganga.

Út af því, sem sami hv. þm. sagði um það, hvort n. hefði athugað, hvað slíkar orlofsbækur mundu kosta, þá get ég sagt það, að það hefur ekki enn verið gert. En það mun nokkuð orðum aukið, að þessi kostnaður muni nema tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda. Við þekkjum nokkuð svipað form, t.d. í sjúkrasamlögum, þar hefur hver sina bók, og prentun slíkra bóka er tiltölulega mjög ódýr. Orlofsmerkin, sem ráð er fyrir gert, held ég að séu líka kostnaðarlítil, án þess að ég geti beint sagt um, hvað þau kosta. Þau mundu verða prentuð í svo stóru upplagi í upphafi, að þau mundu endast í langan tíma, og væri hér því um eins konar stofnkostnað að ræða, sem ríkið yrði að inna af höndum. Einstakir hv. þm. hafa vikið að því, hvort fastir starfsmenn ættu að fá ákveðinn hundraðshluta af kaupi sínu. Þetta er skýrt fram tekið í 4. málsgr. 4. gr. frv., og geta hv. þm. því áttað sig á því, þessir menn fá því ákveðinn tíma á árinu og eru á fullu kaupi, án þess að nokkur hundraðshluti komi ofan á kaupið. Þetta vildi ég taka fram, svo að það gæti ekki valdið misskilningi.