05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

12. mál, orlof

Jón Pálmason:

Mér fannst koma fram sá misskilningur hjá tveim síðustu ræðumönnum, að það mundi skerða rétt verkalýðsins, ef brtt. okkar hv. þm. V.-Húnv. væru samþ., en svo er alls ekki. Það er augljóst, að hver verkamaður mundi njóta þeirra réttinda, sem þetta frv. ætlast til, hvort till. okkar yrðu samþ. eða ekki. Það er svo í okkar opinberu starfsemi, að það virðist vera sótzt eftir því að gera framkvæmdina miklu flóknari en þörf er á. En það, sem fyrir okkur vakir, er að fyrirkomulagið með þessa orlofspeninga verði sem einfaldast og heppilegast fyrir báða aðila. Ég sé ekki heldur, að orlofsmerkin tryggi það á neinn hátt, að þetta fé verði notað til skemmtiferða, en alls ekki til annars. Það er því augljóst mál, þegar hlutaðeigandi verkamaður er búinn að fá peninga út á merki sín, þá getur hann alveg eins notað þá til annarra þarfa en til skemmtiferða, ef hann vill það, og mér sýnist ekki þörf á því að útiloka það á neinn hátt, enda er það ekki hægt, hvort fyrirkomulagið, sem haft er.

Ég vildi aðeins segja þessi orð til þess að fyrirbyggja þann misskilning, sem komið hefur fram, að þetta væri borið fram til þess að rýra rétt þeirra manna, sem eiga að njóta góðs af þessum l. Þar sem hv. frsm. sagðist ekki sjá ástæðu til þess að fresta málinu, getum við gengið inn á að taka brtt. aftur til 3. umr., og fær þá n. í heild tækifæri til þess að segja álit sitt um till.