15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

43. mál, búfjártryggingar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Ég hef við 1. umr. þessa máls gert ýtarlega grein fyrir frv., og er engin þörf á að endurtaka það. Nefndin hefur farið yfir frv. og gert á því nokkrar smávægilegar breyt. Helztu breyt. eru þessar: Í fyrsta lagi, að ef eitthvert ár verður svo mikið tjón af slysum, að iðgjöldin hrökkva ekki til, skal það, sem á vantar, greiðast að jöfnu úr búfjártryggingasjóði deildarinnar og ríkissjóði, en í frv. var gert ráð fyrir, að þetta fé skyldi allt greiðast úr ríkissjóði. Í öðru lagi var gerð breyt. á 9. gr., — þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 300 þús. kr., þá er gert ráð fyrir því í brtt., að þetta fé greiðist á þrem árum.

Mér finnst að öðru leyti ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál, þar sem ég hef áður gert svo rækilega grein fyrir því. Það er ánægjulegt fyrir bændur, að slíkar tryggingar komist á, svo að þeir geti fengið skaða sinn bættan án þess að þurfa að leita til Alþ. í hvert sinn. Það er ekki nema eðlilegt, að ríkið taki þátt í þessu, þegar um mikið tjón er að ræða. Það má búast við, að leitað yrði til Alþ., ef slíkt kæmi fyrir, og þá er eðlilegra að fara þá leið, sem til er ætlazt í frv. Það er ekki nema eðlilegt, að menn vilji tryggja búpening sinn eins og aðrar eignir, og vænti ég þess, að d. taki málinu vel og það geti fengið greiða afgreiðslu á þessu þingi.