04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Gísli Jónsson:

Mér þykir leitt að þurfa að tilkynna hv. flm. það, að ég get ekki fylgt þessu frv. né verið sammála því, sem þar er farið fram á. Mér finnst það ganga langt út yfir alla sanngirni og að með þessu sé verið að ganga á hlut gjaldendanna í landinu.

Það er svo komið, að afgreiðsla útsvarsálagningar hefur dregizt allt of lengi ár frá ári, og nú er það fyrst 1. júní, sem útsvarsálagningu er lokið. Ég sé ekki, að Alþ. Íslendinga geti gefið lausan tauminn í þessu efni, sem frv. fer fram á. Þar er farið fram á hreina fjarstæðu og gengið einna lengst í 2. gr. frv., þar sem heimila á að leggja dráttarvexti 1% á þau gjöld, sem ekki er búið að leggja á gjaldendurna. — Ég undrast yfir, að nokkur maður, sem tekið hefur að sér að fara með umboð gjaldenda í landinu, skuli leyfa sér annað eins og það að fara fram á, að slíkt frv. og þetta nái fram að ganga. Hv. flm. virðist aðeins setja sig í spor bæjarins án þess að virða að verðleikum þann rétt, sem gjaldendur bæjarins óumflýjanlega hafa.

Þá veik hv. síðasti ræðum. að afkomu bæjarins. Ég trúi nú ekki þeim orðum hans, að bæjarstj. hafi búið eins gálauslega að fjármálum bæjarins og heyra mátti af tali hans. En ef það skyldi reynast satt, að í öðru eins tekjuflóði og hér hefur gengið undanfarið sé bærinn í þeim fjárhagserfiðleikum, er hv. ræðum. var að lýsa, þá gefur það mér þrótt til þess að vera á móti því frv., er nú er til umr. Þá verður vissulega að byrja á einhverju öðru til lagfæringar en að fá samþ. óheppileg og ranglát l. fyrir gjaldendurna.

Ég veit ekki betur en atvinnurekendur og húsráðendur beri ábyrgð á því fólki, er hjá þeim vinnur, jafnvel þótt það hafi t.d. ekki unnið meira en 14–20 daga hjá atvinnurekanda, er hann samt skyldugur að greiða gjöld þessa fólks og oft úr eigin vasa, sem mér er kunnugt um. Ég get ekki séð betur en búið sé að ganga nógu langt í þessa áttina, þó að ekki sé verið að bæta gráu ofan á svart með því að fara frá bæjarins hálfu að innheimta þau gjöld, sem ekki hafa verið lögð á gjaldendurna.

Hitt er fjarstæða að halda fram, að það sé illmögulegt fyrir bæinn að taka skyndilán til þess að standa straum af greiðslum í tvo mánuði eða svo. Ég mun því samkv. því, er ég hef nú talað, beita mér á móti frv. þessu við hverja umr. og halda uppi vörn fyrir þá aðila þjóðfélagsins, sem hér er verið að ganga á rétt þeirra.