08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Bernharð Stefánsson:

Ég get ekki fallið frá því, hvað sem hv. frsm. fjhn. segir, að einmitt nú hefði átt að vera vorkunnarlaust fyrir bæjar- og sveitarfélög að sjá svo til, að nóg rekstrarfé væri í bæjar- og sveitarsjóðum til þess að mæta daglegum útgjöldum fyrri hluta árs. Það var að vísu alveg rétt, sem hann sagði, að það er tæplega hægt að byggja útgjaldaáætlun á öðru en rekstri liðins árs, og að á undanförnum árum hafa útgjöldin hækkað, og má búast við, að útgjöldin verði nú hærri á þessu ári en þau voru á síðasta ári. Það eru mörg bæjar- og sveitarfélög landsins, sem hafa haft þá fyrirhyggju að gera ráð fyrir þessu, með því að leggja á nokkru hærri útsvör en beinlínis var hægt að sýna fram á, að þyrfti að nota strax, — beinlínis með það fyrir augum að skaffa sér þannig varasjóð, til þess að geta gripið til. Svo má benda á eitt. Það hefur aldrei í manna minnum verið betra að fá lán heldur en nú er og aldrei fengizt lán með jafngóðum kjörum og nú. Og ég held, að bæjarfélagi eins og Rvík yrði ekki skotaskuld úr því, og það kostaði ekki bæjarfélagið stórfé, að fá eitthvert bráðabirgðalán fyrri hluta ársins, ef á þyrfti að halda.

Hv. frsm. var að tala um, að þessi aðferð væri ekki óviðkunnanleg, sem ég þó hafði lagt áherzlu á í minni ræðu, þetta væri ekki annað en það, að hluti útsvaranna félli fyrr í gjalddaga á árinu en verið hefði. Hv. þm. Barð. hefur nú svarað þessu að nokkru, og ég þarf ekki miklu við það að bæta. En ég vil undirstrika það, sem hann sagði, að þetta er bara alls ekki rétt. Hér er verið að ákveða innheimtu á gjöldum, sem ekki hafa verið lögð á. Það stendur skýrt í frv., að þessar greiðslur eigi að vera upp í útsvör þessa árs, sem ekki er búið að leggja á (GJ: Og verða aldrei lögð á). og það á að miða það við útsvör liðins árs. Það er því beinlínis verið að innheimta gjöld, sem ekki hafa verið lögð á, og það er það, sem ég kalla óviðkunnanlgt. (PM: Þau eru lögð á með þessari löggjöf). Ekki beinlinis. Því að það er gert ráð fyrir niðurjöfnun útsvara eftir sem áður, þó að þessi l. séu samþ.

Það væri þess vert að fara fleiri orðum um þetta mál. En þar sem nú er komið svo langt fram yfir venjulegan fundartíma, mun ég ljúka máli mínu og ekki þreyta umr. meira.