08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Bjarni Benediktsson:

Þetta er fullkomið sanngirnismál, eins og hv. frsm. n. sagði, og ekki síður til hagsbóta fyrir greiðandann heldur en bæjarfélagið. Eina aðfinnslan, sem hér hefur komið fram, er sú, að það hefði verið hægara að taka þessi gjöld á síðasta ári með aukaniðurjöfnun. Það hefði verið hægt að fara þá leið. Og það var rætt um það í bæjarráði að fara þá leið að leggja t.d. 50% ofan á útsvörin á síðasta ári. En að athuguðu máli var álitið, að það mundi koma miklu harðara niður á borgurunum að gera þeim að greiða á 5–7 mánuðum 50% hærra útsvar, en á þessum tíma eiga útsvörin að greiðast samkv. núgildandi l. Þetta þótti miklu harðari aðferð gagnvart þeim og bæjarsjóðnum óþarft, harðara heldur en að láta greiðslurnar halda áfram 10 mánuði ársins og harðara heldur en að láta gjaldþegnana greiða 50% útsvarsins í marz, apríl og maí, þegar þeir mundu annars ekki greiða neitt í útsvar á þeim tíma. Það ráð, sem tekið var, er því til hlunninda fyrir borgarana, það er ekki vafi á því, auk þess sem greiðslurnar er með þessu móti unnt að láta ganga upp í útsvarsgreiðslur á þessu ári, 1943. Og ef tekjur gjaldenda hafa árið 1942 ekki orðið meiri en svo, að þeir eigi ekki að bera svo hátt útsvar sem þessum 50% nemur, þá er ráðgert, að þeir fái endurgreiddan þann mismun. Það hefur því verið viðhöfð í þessu máli öll sú fyrirhyggja, sem hv. 1. þm. Eyf. var að lýsa eftir. Og þetta er að mínu áliti fyrst og fremst hagsmunamál gjaldendanna, en ekki bæjar- eða sveitarfélaganna. Þau mundu geta fengið lán, ef í það færi; en það er bara jafnóþægilegt fyrir gjaldendurna sjálfa eins og bæjar- og sveitarfélögin, að sú aðferð sé höfð.