24.02.1943
Neðri deild: 65. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það er dálítið einkennilegt, að hæstv. Alþ. skuli nær einróma samþ. frv., sem fer fram á að innheimta útsvör, áður en þau eru lögð á. Ég þykist sjá, að til þess arna liggi í raun og veru ein höfuðástæða, eða a.m.k. er ekki gerð grein fyrir nema einni ástæðu fyrir því í grg. frv., nefnilega, að Rvíkurbær sé svo illa staddur, að hann geti ekki komizt af án þess að fá útsvör innheimt, áður en þau eru lögð á. Þó hygg ég, að í fyrra hafi ver:ð lögð á í Rvík meiri útsvör heldur en bærinn var álitinn þurfa þá, eftir fjárhagsáætlun bæjarstjóra, og mun það hafa numið um 2 millj., og þar fyrir utan fékk hann stríðsgróðaskattinn, svo að alls komu í bæjarsjóð yfir 5 millj. fram yfir það, er bæjarstj. í febr. 1942 taldi hann þurfa. Eyðslan hefur því verið mikil. Ástæða er því engin til að bera þetta frv. fram, því að bærinn getur fengið lán til þess að koma sér yfir það tímabil, sem hér er um að ræða.

En mér virðist geta legið önnur orsök til þess, að þetta frv. er fram komið, heldur en þessi, sem tekin hefur verið fram, nefnilega, að gjaldendum sé betra að borga útsvörin á fleiri gjalddögum en verið hefur til þessa. Og þegar búið er að jafna niður útsvörum, sem er ekki gert fyrr en svo, að því er lokið kannske ekki fyrr en í júní, þá er til áramóta ekki orðið eftir nema hálft árið. Það mætti hugsa sér að breyta þessu til á þann hátt að breyta reikningsári hreppanna eða bæjanna þannig, að láta það ekki miðast við áramót, heldur t.d. við 1. júní, svo að útsvörum væri jafnað niður fyrirfram, síðast á reikningsárinu og fyrst á almanaksárinu. Með þessu væri að vísu ekki hægt að komast yfir vandræðatímabil, eins og nú virðist vera í Rvíkurbæ, en þetta gæti verið mjög athugandi fyrir framtíðina. Ég vil heyra, hvort hv. þm. almennt eru þeirrar skoðunar, að þeir vilji leyfa bæjafélögum að innheimta útsvör áður en þau eru lögð á. Og því þá ekki að leyfa ríkissjóði líka að leggja á beina skatta á sama hátt? Hvaða stefna er það yfirleitt að leyfa mönnum þetta ? Hvers konar réttarfar er það, sem á að fara að reka í landinu, að heimta inn skatta af gjaldendum, sem þeir eiga ekki l. samkvæmt að borga — sem ekki er búið að leggja á? Mig undrar, að þm. yfirleitt skuli vera með þessu.