05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

4. mál, áfengislög

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — 24. Nóv. s.l. var máli vísað til hv. allshn. Það var frv. um breyt. á áfengisl. Laust fyrir miðjan desembermánuð spurðist ég fyrir um það, hvað liði afgreiðslu málsins af hálfu n. Formaður allshn., hv. 2. þm. Eyf., lýsti yfir því, að þegar næsta dag skyldi málið tekið til meðferðar í n. En það er enn þá ókomið frá henni. Nokkru síðar var vísað til n. frv. um ráðstafanir til að bæta úr húsnæðisskortinum. Til þessa hefur ekkert heyrzt frá n. um þessi mál og önnur, sem til hennar hefur verið vísað.

Ég verð að telja, að þessi dráttur á afgreiðslu n. að því er snertir frv. það um breyt. á áfengisl., sem ég nefndi, sé með öllu óhæfilegur og verði ekki skýrður með öðru en því, að hv. n. vilji tefja málið og bregða fæti fyrir það, eða þá hinu, að hún sé óhæf að gegna störfum sínum, og er hvorugt gott. Verð ég að biðja hæstv. forseta að hlutast til um það, að hv. n. skili sem fyrst áliti um þessi mál og önnur, sem hún hefur fengið til meðferðar. — Mér þykir leitt að heyra, að form. nefndarinnar, hv. 2. þm. Eyf., getur ekki komið hingað í dag vegna sjúkleika. En hitt má ekki svo til ganga, að n. sofi á málum, sem til hennar er vísað. á þann hátt, sem ég hef gert grein fyrir.